Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tveir afboða

Herbert Sveinbjörnsson og Kolbeinn Stefánsson hafa báðir afboðað þátttöku sína í Baráttudögum í október. Undirbúningur við ráðstefnuna er að öðru leyti á áætlun og Rauður vettvangur vonast til þess að mæting verði góð og umræða frjó!

Fréttatilkynning: Baráttudagar í október

Baráttudagar í október - ár frá hruni
Helgina 10.-11. október heldur Rauður vettvangur ráðstefnuna "Baráttudaga í október - ár frá hruni". Á henni verður farið yfir stöðuna í þjóðfélaginu í fjórum málstofum. "Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar", "Hver fer með völdin á Íslandi?" og "Átök og verkefni framundan" verða á laugardeginum og sameiginlegur kvöldverður um kvöldið. Á sunnudeginum verður fjórða málstofan, "Ný stefna fyrir Ísland", og eftir hana opinn umræðufundur um skipulag nýrrar byltingarhreyfingar. Frummælendur eru Andrea Ólafsdóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Helga Þórðardóttir, Herbert Sveinbjörnsson, Héðinn Björnsson, Jakobína Ólafsdóttir, Kolbeinn Stefánsson, Lilja Mósesdóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Þórarinn Hjartarson og Þórður Björn Sigurðsson.

Rauður vettvangur er félag sósíalista. Það var stofnað í árið 2008 og hefur haldið reglulega og óreglulega fundi, Rauðan fyrsta maí og Rauða daga í Reykjavík í júlí sl. Tilgangur félagsins er að leggja sitt af mörkum í endurskipulagningu íslensks þjóðfélags út úr og upp úr kreppu.

Nánari upplýsingar:
www.raudurvettvangur.blog.is
Vésteinn Valgarðsson - 8629067 - vangaveltur@yahoo.com
Þorvaldur Þorvaldsson - 8959564 - vivaldi@simnet.is

Baráttudagar í október

Ráðstefna ári frá hruni
MÍR-salnum, Hverfisgötu 105
Laugardag 10. og sunnudag 11. október 2009
Rauður vettvangur - raudurvettvangur.blog.is

Ráðstefna Rauðs vettvangs í tilefni þess að ár er liðið af kreppunni. Málstofur í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105 og í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Framsöguerindi og umræður.

1. málstofa
MÍR-salur - laugardag kl. 10-12
Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar

Frummælendur:
Herbert Sveinbjörnsson
Þórarinn Hjartarson
Þórður Björn Sigurðsson

Fundarstjórn:
Þorvaldur Þorvaldsson

2. málstofa
MÍR-salur - laugardag kl. 13-15
Hverjir fara með völd á Íslandi?

Frummælendur:
Gunnar Skúli Ármannsson
Jakobína Ólafsdóttir
Kolbeinn Stefánsson

Fundarstjórn:
Vésteinn Valgarðsson

3. málstofa
MÍR-salur - laugardag kl. 16-18
Átök og verkefni framundan

Frummælendur:
Andrea Ólafsdóttir
Lilja Mósesdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson

Fundarstjórn:
Héðinn Björnsson

4. málstofa
MÍR-salur - sunnudag kl. 11-13
Ný stefna fyrir Ísland

Frummælendur:
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Helga Þórðardóttir
Vésteinn Valgarðsson
Þorvaldur Þorvaldsson

Fundarstjórn:
G. Rósa Eyvindardóttir

Opinn umræðufundur
Friðarhús - sunnudag kl. 14-18
Drög að nýrri byltingarhreyfingu

Héðinn Björnsson
Þórarinn Hjartarson

Allir Velkomnir - Aðgangur ókeypis - Frjáls framlög vel þegin

Sameiningarstefnuskrá fyrir nýtt Ísland 2009

1.    Endurheimt fullveldisins
Ísland standi utan ESB og leitist við að að semja um viðskipti á forsendum þjóðarinnar við þær þjóðir sem vilja skipta við okkur á grunni gagnkvæmrar sanngirni.

Ísland hafni láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeim afarkostum og þvingunaraðgerðum sem því fylgir.

Ísland segi sig úr NATO og vinni að friði á alþjóðavettvangi eftir megni.

Icesave-ríkisábyrgðinni verði hafnað og leitast við að semja við erlenda kröfuhafa á íslenska aðila um sanngjarnt uppgjör sem miða við það hvað þjóðin er örugg um að geta staðið við án þess að innviðum samfélagsins og yfirráðum yfir auðlindum hennar sé ógnað.

2.    Sameign þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum verði tryggð til framtíðar.

3.    Auðvaldið borgi fyrir sína kreppu.
Horfið verði frá þeirri stefnu sem allar ríkisstjórnir hafa fylgt til þessa að einkavæða gróðann í samfélaginu en ríkisvæða tapið.

Í stað skrípaleiks „sérstaks ríkissaksóknara“ verði náð í þær eignir sem hægt er frá þeim sem, vitandi vits, rændu íslenska banka og ollu með því hruni í íslensku efnahagslífi árið 2008. Komið verði í veg fyrir að slíkar aðstæður geti komið upp aftur og þeim verði refsað sem ástæða er til. Hins vegar verði komið í veg fyrir upptöku á fasteignum almennings og fundin sanngjörn leið til að bæta almenningi að nokkru það tjón sem efnahagshrunið hefur valdið. Þurfi að setja afturvirk lög til að þetta nái fram að ganga, verði það gert.

4.    Félagsvæðing grunnstoða samfélagsins
Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður. Hagur almennings og samfélagsins í heild af starfseminni verði í öndvegi og viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun. Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi.

Með grunnstoðum er átt við:
 
•    Heilbrigðiskerfið
•    Lífeyriskerfið
•    Tryggingakerfið
•    Félagsþjónusta
•    Menntakerfið
•    Fjármálakerfið
•    Fjarskiptakerfið
•    Samgöngukerfið
•    Auðlindastjórnun
 
5.    Efling lýðræðis.
Auknir verði möguleikar almennings til að hafa pólitísk og efnahagsleg áhrif, gegnum almannasamtök, stjórnmálaflokka og á vinnustað. Aukið gegnsæi verði í stjórnsýslunni og leynd aflétt af öllu sem ekki varðar þjóðaröryggi.

Atkvæðisréttur verði jafnaður með því að landið verði gert að einu kjördæmi og þingsætum úthlutað eftir atkvæðahlutfalli. Hvert framboð getur ákveðið hvað það stillir upp löngum lista frambjóðanda.

20% atkvæðisbærra landsmanna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál með undirskrift sinni. Eins geti þriðjungur þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Virt skal sú regla að vilji þjóðarinnar vegi þyngra en vilji þingsins.

Efnt skal til stjórnlagaþings til að semja uppkast að nýrri stjórnarskrá sem tryggi lýðræðisleg réttindi almennings betur en nú er gert.


Kosningastefnuskrá Rauðs vettvangs vegna Alþingiskosninga vorið 2009

Nokkur atriði sem Rauður vettvangur skorar á fólk að hafa í huga þegar það tekur þátt í kosningum og prófkjörum

Verkefnin fyrir kosningarnar í vor verða að skoðast í ljósi efnahagskreppu auðvaldsins sem valdið hefur algeru hruni efnahagslífsins á Íslandi. Afleiðingar kreppunnar eiga að mestu eftir að koma í ljós. Ef ekki verður brugist við á róttækan hátt er hætt við fjöldagjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja, gríðarlegu atvinnuleysi og landflótta. Þetta gæti leitt til upplausnar í samfélaginu sem langan tíma tæki að jafna sig á.

Fjöldi fólks sem jafnvel hefur fram að þessu ekki verið hlynnt sósíalisma hlýtur að horfast í augu við að til að þjóðin komist eins farsællega og hægt er út úr þessum vanda, verður að beita félagslegum lausnum í meiri mæli en hér hefur áður verið gert. Til að þjóðin gangist inn á að vinna upp það tjón sem fjármálaauðvaldið hefur unnið samfélaginu í skjóli ríkisvaldsins, verður hún að fá vissu fyrir því að ekki verði öllu rænt frá henni jafnóðum. Þess vegna verður að hverfa frá kreddum kapítalískra kenninga um að einkarekstur sé lykill að farsæld og að arðrán sé það eina sem geti drifið hagkerfið. Í ljósi þess er hægt að lífga við mörg gjaldþrota fyrirtæki undir forræði starfsfólks eða undir öðrum félagslegum formerkjum og leysa þannig úr læðingi möguleika þeirra á verðmætasköpun fyrir samfélagið og rjúfa vítahring kreppunnar.

1. Sjálfstæði þjóðarinnar

Íslenska þjóðin verður að að verja sjálfstæði sitt og ganga til samninga um erlendar skuldir á raunhæfum grundvelli þar sem tekið verði tillit til greiðslugetu þjóðarinnar og hvar ábyrgðin á efnahagshruninu raunverulega liggur og bjóða upp á samvinnu við aðrar þjóðir um að ganga að eignum hinna ábyrgu á erlendri grund.

Hafna ber aðild að Evrópusambandinu enda myndi hún síst auðvelda þjóðinni að vinna bug á afleiðingum kreppunnar en öllu heldur hindra hana í gera það á eigin forsendum.

Stefnt skal að úrsögn Íslands úr NATO og að íslenska ríkið beiti sér gegn árásarstyrjöldum þar sem það kemur slíku við. Íslenska ríkinu ber að beita sér á alþjóðavettvangi gegn því að vaxandi heimskreppa leiði til nýrrar heimsstyrjaldar.

2. Auðlindir þjóðarinnar

Tryggja þarf að auðlindir þjóðarinnar verði í reynd í þjóðareign og komið í veg fyrir brask með þær og rányrkju. Koma verður á réttlátu kerfi til að skipuleggja nýtingu auðlindanna og tryggja að þjóðin njóti afraksturs af þeim. Koma verður í veg fyrir að auðmenn taki út hagnað með því að veðsetja auðlindir og skilji þjóðina eftir í skuldaábyrgð.

3. Fjármálakerfið og skuldir heimilanna

Byggt verði upp fjármálakerfi á félagslegum grunni sem verði til þjónustu fyrir almenning og fyrirtæki með hóflegum kostnaði og hafi raunhæfa og stöðuga verðmætasköpun og velferð almennings að leiðarljósi en hafni spákaupmennsku. Komið skal í veg fyrir að fólk þurfi að ganga að afarkostum til að fá fjármálaþjónustu.

Verðtrygging skal afnumin af lánum, til að ná niður verðbólgu. Leiðrétta skal húsnæðislán til almennings með hlutfallslegum lækkunum, með tilliti til oftekinna verðbóta á undangengunum árum og verðfalls á fasteignum, sem stafar að miklu leyti af svikamyllu fjármálaauðvaldsins og aðgerðum stjórnvalda.

4. Efling hagkerfisins með verðmætasköpun á félagslegum forsendum

Við uppbyggingu efnahagslífsins þarf að efla rannsóknir og nýsköpun, styðja sérstaklega við greinar sem geta skilað raunverulegum verðmætum inn í hagkerfið. Hugað skal að því að endurnýja lífdaga fyrirtækja sem eru illa stödd fjárhagslega en lífvænleg að öðru leyti, á félagslegum forsendum, t.d. með yfirtöku starfsfólksins eða á öðrum félagslegum grundvelli. Leitast skal við að hreinsa hagkerfið af skúffu- og gervifyrirtækjum sem soga til sín verðmæti án þess að skapa neitt.

Styðja skal við innlenda framleiðslu, þar á meðal landbúnað og sjávarútveg, til að tryggja afkomuöryggi þjóðarinnar.

5. Efling velferðarkerfisins

Almannatryggingakerfi og heilbrigðiskerfi verði endurreist og rekin félagslega. Markvisst verði dregið úr einkarekstri. Tannlækningar verði greiddar úr sameiginlegum sjóðum eins og aðrar lækningar. Menntakerfi verði stóreflt, bæði almenn menntun og rannsóknir.

6. Efling lýðræðisins

Halda ber stjórnlagaþing hið fyrsta. Alþingi skal ekki setja því verkefnalista eða aðrar skorður. Það skal styrkja lýðræðið í landinu, m.a. með því að landið verði eitt kjördæmi, að allir kjörnir fulltrúar verði afsetjanlegir þegar umbjóðendur þeirra vilja, upplýsingaskylda verði stórefld og leynd létt af stjórnkerfinu. Setja ber praktísk ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, t.d. að ákveðið hlutfall kjósenda geti krafist þeirra.


Ályktun aðalfundar Rauðs vettvangs 28. mars 2009

Eftir að kreppa auðvaldsins lagðist yfir íslenskt samfélag síðastliðið haust hafa öll máttarvöld kerfisins reynt að telja fólki trú um að aðrar ástæður séu fyrir kreppunni en auðvaldskerfið sjálft. Margir þykjast hafa lausnir á vandanum og láta í það skína skjótt muni bregða til hins betra.

Sannleikurinn er hins vegar sá að verstu afleiðingar kreppunnar eiga eftir að koma fram. Auðvaldið ætlar að láta almenning borga brúsann með aleigu sinni og skuldaþrældómi, en halda sjálft eftir ránsfeng sínum og halda áfram upptöku á eignum almennings jafnóðum og þær verða til.

Fjármálaauðvaldið er sníkjudýr á hagkerfinu sem sogar til sín öll verðmæti og sóar þeim. Þannig verður það svo lengi sem það leikur lausum hala. Til að reisa réttlátt samfélag úr rústum hins, er því lykilatriði að baráttan beinist almennt gegn yfirráðum auðvaldsins yfir samfélaginu, og þá sérstaklega fjármálaauðvaldsins. Þess vegna er nauðsynlegt að öll fjármálastarfsemi sé þjóðnýtt og gerð að þjónustustofnunum við almenning.


Lög fyrir Rauðan vettvang

1. Félagið heitir Rauður vettvangur. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík en félagssvæði er Ísland allt.

2. Félagsmenn geta þeir orðið sem samþykkja stefnuyfirlýsingu félagsins og greiða félagsgjöld. Verði félagsmaður uppvís að því að vinna gegn stefnu félagsins getur stjórnin veitt honum áminningu eða vísað honum úr félaginu án undangenginnar áminningar ef brot er stórfellt. Brottvikningu má áfrýja til félagsfundar, sem þá skal haldinn innan tveggja vikna, þar sem hinn brottvikni hefur málfrelsi og atkvæðisrétt.

3. Tilgangur félagsins er að vinna að uppbyggingu nýs þjóðskipulags á Íslandi, á grundvelli sósíalisma, lýðræðis og mannréttinda, og að afnámi auðvaldsskipulagsins.

4. Starfsár félagsins og reikningsár er almanaksárið. Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn fyrir marslok ár hvert. Hann skal boðaður með minnst þriggja vikna fyrirvara. Lagabreytingartillögur skulu liggja fyrir með tveggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi eiga atkvæðisrétt allir félagar sem standa í skilum með félagsgjöld. Verkefni aðalfundar eru:
a. Skýrsla stjórnar um undangengið starfsár.
b. Reikningar fyrir undangengið starfsár.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
e. Starf félagsins framundan.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál.

5. Séu fyrirliggjandi brýn mál sem heyra undir aðalfundarstörf og ekki geta beðið reglulegs aðalfundar getur stjórn boðað til aukaaðalfundar sem þá hefur fullt ákvörðunarvald í þeim málum. Einnig skal boða til aukaaðalfundar ef  20% félagsmanna fara fram á það og leggja fram tillögu að dagskrá. Aukaaðalfundur skal boðaður á sama hátt og aðalfundur.

6. Stjórn félagsins skipa 5 félagar og 2 til vara. Stjórnin ber ábyrgð á starfsemi félagsins milli aðalfunda og boðar til félagsfunda eftir því sem þurfa þykir, en ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Stjórn skiptir með sér verkum og velur úr sínum hópi ritara, gjaldkera og annað eftir atvikum. Einnig geta nefndir og starfshópar starfað að ýmsum málum á vegum félagsins ýmist í umboði stjórnar eða félagsfundar. Allir félagsmenn hafa rétt til að bera upp mál við stjórn milli funda.

7. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi eða aukaaðalfundi. Til að breyta lögum þarf samþykki 2/3 hluta fundarmanna. Komi fram tillaga um slit félagsins skal hún tekin fyrir á aðalfundi eða aukaaðalfundi og skal hún þá vandlega kynnt í fundarboði. Til samþykkis henni þarf atkvæði 3/4 hluta fundarmanna og þarf 1/2 félagsmanna að vera viðstaddur. Ef ekki næst tilskilinn fjöldi skal boða framhaldsaðalfund, sem hefur fullt vald óháð mætingu. Verði hún samþykkt skal sami fundur ráðstafa eignum félagsins í þágu málstaðar þess.


Stefnuskrá Rauðs vettvangs

Rauður vettvangur er hreyfing sem setur sér það markmið að taka þátt í umsköpun þjóðfélagsins á Íslandi þannig að í stað kapítalismans rísi nýtt þjóðfélag þar sem lýðræði, jafnrétti, jöfnuður og mannréttindi allra verði í fyrirrúmi. Við viljum að hagkerfið og stofnanir þjóðfélagsins verði rekin á félagslegum forsendum, í þágu almennings í landinu, að allir njóti arðsins af vinnu sinni og taki þátt í að skipuleggja hana. Við viljum að framtak og frumkvæði verði leyst úr viðjum auðmagnsins, svo mannlíf og menning fái að blómstra.
 
Til þess teljum við óhjákvæmilegt að mynda stjórnmálasamtök sem geta orðið baráttutæki fyrir fólkið í landinu gegn auðvaldsskipulaginu og afleiðingum þess.
 
1. Hið nýja Ísland
Nýtt Ísland þarf að vera byggt af almenningi og í þágu almennings. Mannlegar þarfir skulu vera í fyrsta sæti. Framleiðslu þarf að skipuleggja og neyslu að áætla þannig að mestu þjóðhagslegu hagkvæmni sé náð, fólk fái sanngjarna umbun fyrir vinnu sína og verðmæti lands og þjóðar séu varðveitt eins vel og hægt er fyrir komandi kynslóðir. Það þýðir að atvinnulífið verður að vera fjölbreytt, sjálfbært og laust við forréttindahópa. Mismunun vegna kynferðis, kynhneigðar eða annarrar stöðu verður að hverfa.
 
1.1 Lýðræðislegt stjórnarfar, gegnsæi og ábyrgð
Lýðræði og mannréttindi verða að vera grundvallarforsendur í allri pólitískri og efnahagslegri starfsemi í landinu. Allar ákvarðanir verða að vera lýðræðislega teknar af þeim sem þær varða. Allir embættismenn og kjörnir fulltrúar verða að vera afsetjanlegir hvenær sem er þegar umbjóðendum þeirra finnst tími til kominn. Virk þátttaka almennings og greiður aðgangur að upplýsingum eru skilyrði fyrir því að hann haldi þeim völdum sem hann getur náð.
 
1.2 Lýðræðislegt hagkerfi, jöfnuður og skipulag
Það þarf að stjórna lýðræðislega á vinnustöðum eins og annars staðar í þjóðfélaginu. Yfirmenn þurfa að svara til undirmanna. Skipulagning framleiðslu, dreifingar og verðlagningar þarf að vera í samráði milli framleiðenda og neytenda svo ekki sé bruðlað, ekki sé spillt og verðmæti rati þangað sem þeirra er þörf.
 
1.3 Sameign, samvinna, samhjálp
Atvinnuvegirnir í landinu og auðlindir þess skulu vera í sameign þeirra sem vinna við þá, þeirra sem neyta afurðanna og landsmanna allra eftir atvikum, eftir þeirri reglu að þeir sem málið varðar hafi um það að segja. Til þess eru margar leiðir færar og þarf ekki ein að útiloka aðrar. Samvinnufélög, verkalýðsfélög, ríkis- eða landssjóður og fleiri möguleikar koma þar til greina og þarf að skoða þá alla.
 
Landsmenn þurfa að vinna saman að því að uppfylla þarfir sínar og hjálpast að. Þeir mega ekki láta forréttindi eða einkahagsmuni spilla fyrir eða vera þröskulda á vegi samstarfs og sameiginlegrar velferðar.
 
2. Kapítalisminn
Það hriktir í stoðum kapítalismans. Oft hefur hann farið illa með almenning en langt er síðan Íslendingar hafa orðið jafn illa fyrir barðinu á honum eins og nú. Fólk hefur alltaf verið fátækt, en á síðustu öld hafa tækniframfarir skapað efnisleg skilyrði til almennrar velsældar, og fátæktin sem eitt sinn var óumflýjanlega almenn er núna af mannavöldum.
 
2.1 Einkaeignarréttur
Auðvaldið byggist á einkaeignarréttinum á tækjum til að framleiða verðmæti og miðla þeim. Í krafti hans setur það öðru fólki skilyrði: Launþegar þurfa að undirgangast arðrán til að mega fá vinnu, neytendur þurfa að undirgangast okurverð og skuldunautar banka og lánastofnana þurfa að undirgangast okurvexti.
 
2.2 Arðrán, okur og rányrkja
Kapítalismi þrífst á því að arðræna vinnandi fólk, okra á neytendum og stunda rányrkju á náttúruauðlindum. Auðmagn er eigingjarnt og skammsýnt. Það sækist ekki eftir öðru en skjótum hámarksgróða. Kapítalistar sem ekki fara eftir þessari kröfu lúta í lægra haldi í samkeppni.
 
Arðrán skapar félagslegt misgengi, ójöfnuð sem fer vaxandi með tímanum. Aukin afköst hafa ekki skilað launþegum hærri launum, heldur tekur auðvaldið aukninguna út sem arð, sem aftur er veittur launþegum að láni og látinn standa undir neyslu samhliða skuldasöfnun. Neyslan hefur fengið almenning til að trúa að hann tilheyri ekki verkalýð heldur millistétt.
 
2.3 Fjármálakapítalismi
Hagkerfi Íslands tók miklum breytingum snemma á 9. áratugnum með vaxtafrelsi og þegar útgerðarmönnum var gefinn fiskveiðikvótinn. Síðan eru skrefin orðin fleiri. Stórtæk einkavæðing hefur fært auðmönnum gríðarmiklar eignir sem þeir hafa lagt að veði í braski með verðbréf og óraunveruleg verðmæti. Í gegn um lífeyrissjóði hafa þeir notað sparifé launþega í sama skyni.
 
Fjármálakerfið er órjúfanlegur hluti af iðnaðarkapítalisma og stjórnar honum. Lengst af var vöxtur þess í samræmi við aukna framleiðni iðnaðarins, en þegar skorið var á þau tengsl öðlaðist það sjálfstætt líf og tók á sig mynd nýfrjálshyggjunnar. Verðbréfaviðskipti snúast um brask með væntingar – sölu á framleiðslu framtíðarinnar, verðmætum sem eru ekki til. Arðsemiskröfur blása markaðinn upp og sú ranghugmynd skapast að peningar framleiði verðmæti. Fjármagnskerfið getur ekki vaxið óendanlega frekar en nokkuð annað og er dæmt til að lenda í kreppu aftur og aftur þegar það fer fram úr raunverulegri verðmætasköpun.
 
Það eru ekki óreiðumenn sem skapa kreppuna, heldur er hún innbyggð í óreiðukerfið sem heimtar hámarksgróða strax.
 
2.4 Iðnaðarkapítalismi
Kapítalísk verðmætaframleiðsla gengur hvorki út á að framleiða vörur né veita þjónustu, heldur græða peninga. Skiptagildi verðmæta vegur þyngra en notagildi þeirra. Vegna þess að hagkvæmni kapítalísks iðnaðar miðast ekki við þarfir þjóðfélagsins heldur eigendanna, er hún hvorki nógu mikil, né skipt af sanngirni. Hún einkennist af óreiðu og bruðli. Einkahagsmunirnir hika ekki við að færa fórnir á kostnað almennings. Þeim sama hvort ósnortnu landi er sökkt, menningarverðmætum spillt eða loft og vatn menguð.
 
2.5 Markaðurinn
Hinn kapítalíski markaður þjónar auðvaldinu, ekki fólkinu. Skortur er honum nauðsynlegur til að verðleggja vörur og þjónustu, sem fara til þeirra sem geta borgað en ekki þeirra sem hafa þarfir. Dæmi um þetta er lyfjaiðnaðurinn, sem framleiðir dýr lyf handa Vesturlandabúum á meðan þúsundir barna deyja daglega í Afríku úr sjúkdómum sem auðvelt er að lækna. Kapítalískur markaður er í stöðugri kreppu í aðra röndina þar sem atvinnugreinar og landshlutar veslast upp vegna vanrækslu, en í stjórnlausum vexti á hinum endanum þar sem gróða er von.
 
2.6 Heimsvaldastefna
Þegar fjármálabrask vex framleiðsluhagkerfinu yfir höfuð sækir það út fyrir landsteinana í leit að nýjum tækifærum. Uppkaup íslenskra auðmanna á evrópskum fyrirtækjum eru til marks um það, og litlu munaði að íslenskt hugvit í orkuvinnslu yrði notað til að arðræna þriðja heiminn. Ísland er í senn heimsvaldaríki, þótt smátt sé, og efnahagsleg hjálenda annarra heimsvaldaríkja, til dæmis fyrir ódýrt rafmagn til álframleiðslu. Íslenska heimsvaldastefnan – hin svokallaða „útrás“ – hefur náð því markmiði að byggja upp einokunarauðvald og þjappa gríðarlegum eignum á fárra hendur. Þegar bakslag kemur í sóknina vill íslenska auðvaldið framselja sjálfsforræðið, ekki í hendur fólkinu í landinu heldur bandalagi evrópskra auðhringa. Það er nýjasti bakhjarl auðmannastéttarinnar sem áður var hálf-evrópsk-amerísk, þar áður hálf-ensk og þar áður hálf-dönsk.
 
Togstreita um auðlindir og markaði er algengasta orsök stríðs og með þátttöku í alþjóðlegri heimsvaldastefnu hefur Ísland tekið þátt í árásum gegn Júgóslavíu, Afganistan og Írak.
 
2.7 Velferðarkerfi og ríkiskapítalismi
Velferðarkerfinu var komið á víða í heiminum eftir stríð, til að lægja öldur stéttabaráttu og afstýra byltingarógn. Þegar sú ógn var ekki lengur til staðar byrjuðu ráðandi öfl að vinda ofan af því og sækja í ný gróðatækifæri með kröfum um einkavæðingu og útboð. Þjónusta hins opinbera og aðgangur fólks að námi, heilsugæslu o.s.frv. hafa verið takmörkuð við þá sem borga. Ríkisrekin fyrirtæki hafa verið færð auðmönnum svo þeir geti mjólkað þau – og þann almenning og þau fyrirtæki sem þarfnast þeirra.
 
Sú tegund ríkisrekstrar sem hingað til hefur þekkst á Íslandi er kapítalísk. Ríkisfyrirtækin eru hluti af kapítalísku hagkerfi og þjóna því. Stjórnendur eru menn sem auðvaldið treystir. Þegar ríkiseignir eru einkavæddar eru þær fengnar mönnum sem valdamenn treysta – auðmönnum sem enginn hefur kosið. Tilgangur ríkiskapítalisma er stundum að hemja krepputilhneigingar og annað stjórnleysi kapítalismans, stundum að reka einhverja þjónustu fyrir skattfé, sem erfitt er fyrir einkaauðvald að hagnast nóg á.
 
2.8 Lýðræði og vald í ríkinu
Ríkisvald er framkvæmdanefnd ráðandi stéttar. Í kapítalísku þjóðfélagi er ríkið kapítalískt og þjónar kapítalistastéttinni. Allt fyrirkomulag þess er sniðið að þörfum hennar, stjórnmálaflokkarnir, löggjöfin, þingræðið, dómstólarnir, hagstjórnin og önnur valdatæki. Grunntilgangur lýðræðis í auðvaldsþjóðfélaginu er að valdaskipti milli mismunandi auðvaldshagsmuna geti gengið friðsamlega fyrir sig. Þessir hagsmunir birtast í borgaralegum stjórnmálaflokkum.
 
Höfuðtilgangur ríkisins sem slíks er að halda stéttaandstæðum niðri með valdi. Það notar lögreglu og önnur valdbeitingartæki til að verja grundvallarhagsmuni auðvaldsins sem stéttar – einkaeignarréttinn.
 
Fjölmiðlar á Íslandi eru í þjónustu auðvaldsins. Eigendur velja ritstjóra sem svara til þeirra og þeir treysta. Því sem eigendur ráða ekki ráða kaupendur auglýsinga.
 
Auðvaldið hefur deilt og drottnað með því að mismuna vinnandi fólki og fólki almennt, m.a. eftir kynferði, þjóðernislegum uppruna, kynhneigð og heilsufari.
 
3. Breytingarnar sem verða að eiga sér stað
Þörf er á eðlisbreytingu á þjóðfélaginu, þar sem vald víkur fyrir lýðræði, leynd fyrir upplýsingum, spilling fyrir ábyrgð og forréttindi fyrir jöfnuði. Það gildir bæði um ríkið, hagkerfið og þjóðfélagið allt.
 
3.1 Hlutverk almennings
Almenningur í landinu, vinnandi fólk af öllum stéttum, er eina aflið sem megnar að koma í kring nauðsynlegum breytingum og það afl sem hefur mesta hagsmuni af þeim.Breytingarnar verða að vera í hans þágu og til að þær skili tilætluðum árangri verður almenningur að taka völdin í sínar eigin hendur. Þar sem auðvaldsstéttin er ólíkleg til að samþykkja að gefa forréttindi sín eftir, má leiða líkum að því að þetta verði aðeins gert þannig að fjöldahreyfing launþega beinlínis yfirtaki atvinnulífið og ríkisvaldið.
 
3.2 Hlutverk sósíalista
Hlutverk sósíalista er fræðsla, skipulagsstarf og annað nauðsynlegt pólitískt frumkvæði. Almenningur verður að eiga völ á sjálfstæðu pólitísku afli sem talar máli vinnandi fólks en ekki auðvaldsins.
 
3.3 Núverandi stjórnmálaflokkar
Enginn núverandi stjórnmálaflokka hefur það á stefnuskránni að afnema auðvaldsskipulagið, heldur stefna þeir allir á að varðveita það, í einni eða annarri mynd, og að varðveita áframhaldandi arðsemi eignastéttarinnar. Rauður vettvangur sér brýna þörf fyrir stjórnmálasamtök sem beita sér beinlínis fyrir afnámi auðvaldsskipulagsins.
 
3.4 Uppgjör við borgaralegt ríkisvald
Núverandi ríkisvald er kapítalískt og vinnur gegn hagsmunum almennings. Það þarf að afnema það og setja í staðinn upp nýtt lýðveldi á nýjum, félagslegum forsendum. Það felur í sér lýðræði á öllum sviðum og að yfirbyggingin sé ekki stærri eða flóknari en nauðsynlegt er.
 
3.5 Uppgjör við kapítalíska framleiðsluhætti
Kapítalíska framleiðsluhætti viljum við afleggja, og þar með húsbóndavald í efnahagskerfinu, lánveitingavald okurlánara, sókn eftir hámarksgróða einkafyrirtækja, veitingarvald embættismanna, óskipulega framleiðslu sem miðast við gróða en ekki þarfir og bruðl og rányrkju á auðlindum.
 
Kapítalisminn og meinbugir hans eru ekki náttúrulögmál og það er á mannlegu valdi að afleggja óréttlátt kerfi og byggja upp réttlátt í staðinn.
 
Rauður vettvangur

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband