Nokkur atriði sem Rauður vettvangur skorar á fólk að hafa í huga þegar það tekur þátt í kosningum og prófkjörum
Verkefnin fyrir kosningarnar í vor verða að skoðast í ljósi efnahagskreppu auðvaldsins sem valdið hefur algeru hruni efnahagslífsins á Íslandi. Afleiðingar kreppunnar eiga að mestu eftir að koma í ljós. Ef ekki verður brugist við á róttækan hátt er hætt við fjöldagjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja, gríðarlegu atvinnuleysi og landflótta. Þetta gæti leitt til upplausnar í samfélaginu sem langan tíma tæki að jafna sig á.
Fjöldi fólks sem jafnvel hefur fram að þessu ekki verið hlynnt sósíalisma hlýtur að horfast í augu við að til að þjóðin komist eins farsællega og hægt er út úr þessum vanda, verður að beita félagslegum lausnum í meiri mæli en hér hefur áður verið gert. Til að þjóðin gangist inn á að vinna upp það tjón sem fjármálaauðvaldið hefur unnið samfélaginu í skjóli ríkisvaldsins, verður hún að fá vissu fyrir því að ekki verði öllu rænt frá henni jafnóðum. Þess vegna verður að hverfa frá kreddum kapítalískra kenninga um að einkarekstur sé lykill að farsæld og að arðrán sé það eina sem geti drifið hagkerfið. Í ljósi þess er hægt að lífga við mörg gjaldþrota fyrirtæki undir forræði starfsfólks eða undir öðrum félagslegum formerkjum og leysa þannig úr læðingi möguleika þeirra á verðmætasköpun fyrir samfélagið og rjúfa vítahring kreppunnar.
1. Sjálfstæði þjóðarinnar
Íslenska þjóðin verður að að verja sjálfstæði sitt og ganga til samninga um erlendar skuldir á raunhæfum grundvelli þar sem tekið verði tillit til greiðslugetu þjóðarinnar og hvar ábyrgðin á efnahagshruninu raunverulega liggur og bjóða upp á samvinnu við aðrar þjóðir um að ganga að eignum hinna ábyrgu á erlendri grund.
Hafna ber aðild að Evrópusambandinu enda myndi hún síst auðvelda þjóðinni að vinna bug á afleiðingum kreppunnar en öllu heldur hindra hana í gera það á eigin forsendum.
Stefnt skal að úrsögn Íslands úr NATO og að íslenska ríkið beiti sér gegn árásarstyrjöldum þar sem það kemur slíku við. Íslenska ríkinu ber að beita sér á alþjóðavettvangi gegn því að vaxandi heimskreppa leiði til nýrrar heimsstyrjaldar.
2. Auðlindir þjóðarinnar
Tryggja þarf að auðlindir þjóðarinnar verði í reynd í þjóðareign og komið í veg fyrir brask með þær og rányrkju. Koma verður á réttlátu kerfi til að skipuleggja nýtingu auðlindanna og tryggja að þjóðin njóti afraksturs af þeim. Koma verður í veg fyrir að auðmenn taki út hagnað með því að veðsetja auðlindir og skilji þjóðina eftir í skuldaábyrgð.
3. Fjármálakerfið og skuldir heimilanna
Byggt verði upp fjármálakerfi á félagslegum grunni sem verði til þjónustu fyrir almenning og fyrirtæki með hóflegum kostnaði og hafi raunhæfa og stöðuga verðmætasköpun og velferð almennings að leiðarljósi en hafni spákaupmennsku. Komið skal í veg fyrir að fólk þurfi að ganga að afarkostum til að fá fjármálaþjónustu.
Verðtrygging skal afnumin af lánum, til að ná niður verðbólgu. Leiðrétta skal húsnæðislán til almennings með hlutfallslegum lækkunum, með tilliti til oftekinna verðbóta á undangengunum árum og verðfalls á fasteignum, sem stafar að miklu leyti af svikamyllu fjármálaauðvaldsins og aðgerðum stjórnvalda.
4. Efling hagkerfisins með verðmætasköpun á félagslegum forsendum
Við uppbyggingu efnahagslífsins þarf að efla rannsóknir og nýsköpun, styðja sérstaklega við greinar sem geta skilað raunverulegum verðmætum inn í hagkerfið. Hugað skal að því að endurnýja lífdaga fyrirtækja sem eru illa stödd fjárhagslega en lífvænleg að öðru leyti, á félagslegum forsendum, t.d. með yfirtöku starfsfólksins eða á öðrum félagslegum grundvelli. Leitast skal við að hreinsa hagkerfið af skúffu- og gervifyrirtækjum sem soga til sín verðmæti án þess að skapa neitt.
Styðja skal við innlenda framleiðslu, þar á meðal landbúnað og sjávarútveg, til að tryggja afkomuöryggi þjóðarinnar.
5. Efling velferðarkerfisins
Almannatryggingakerfi og heilbrigðiskerfi verði endurreist og rekin félagslega. Markvisst verði dregið úr einkarekstri. Tannlækningar verði greiddar úr sameiginlegum sjóðum eins og aðrar lækningar. Menntakerfi verði stóreflt, bæði almenn menntun og rannsóknir.
6. Efling lýðræðisins
Halda ber stjórnlagaþing hið fyrsta. Alþingi skal ekki setja því verkefnalista eða aðrar skorður. Það skal styrkja lýðræðið í landinu, m.a. með því að landið verði eitt kjördæmi, að allir kjörnir fulltrúar verði afsetjanlegir þegar umbjóðendur þeirra vilja, upplýsingaskylda verði stórefld og leynd létt af stjórnkerfinu. Setja ber praktísk ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, t.d. að ákveðið hlutfall kjósenda geti krafist þeirra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 7.9.2009 | 01:29 | Facebook
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 9719
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.