Þessa ræðu flutti Þorvaldur Þorvaldsson á útifundi Rauðs vettvangs gegn ESB, sem haldinn var á Lækjartorgi föstudaginn 16. júlí 2010.
Félagar.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hélt því fram nýverið að ef Íslendingar hefðu fylgt hans ráðum og gengið í Evrópusambandið fyrir nokkrum árum væri hér engin kreppa. Og sérstaklega ætti þetta við ef við hefðum tekið upp evruna. Það er auðvelt að halda fram svona fjarstæðu í hópi jábræðra þar sem enginn hreyfir andmælum. Þar sem enginn spyr hvers vegna sé þá svona djúp kreppa í Lettlandi, Grikklandi og mörg önnur ríki í Evrópusambandinu eru djúpt sokkin í skuldafen sem á rætur sínar að rekja til inngöngu þeirra í ESB.
Fyrir mánuði síðan var ég í Grikklandi á andspyrnuhátíð gegn kreppupólitíkinni. Þar er andúðin á ESB aðilinni orðin mikil og umræða hafin um úrsögn úr sambandinu. Enda er gríska þjóðin að glata yfirráðunum yfir eigin samfélagi í hendur erlendra auðhringa og lítur í vaxandi mæli á aðildina að ESB sem aðra innrás Þjóðverja. Alþjóðaflugvöllurinn í Aþenu er í eigu Þjóðverja. Vegurinn að flugvellinum er einnig í eigu Þjóðverja sem rukka vegatoll. Þýskir og alþjóðlegir auðhringar sölsa undir sig fleiri og fleiri fyrirtæki sem mörg hver hafa mikla samfélagslega þýðingu.
Sama þróun á sér stað hér á landi. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu auðveldaði klíkum auðmanna að skuldsetja þjóðina sem nemur margfaldri landsframleiðslu eins og flestir þekkja. En þessir miklu skuldafjötrar eru engin tilviljun. Þeir eru ekki vegna þess að viðkomandi þjóðir séu allt í einu orðnar svona spilltar og latar að þær séu ekki matvinnungar.
Auðvaldsskipulagið byggist á arðráni. Fjármagnið verður alltaf að skila hámarksgróða sem aftur þarf að vera hægt að fjarfesta fyrir hámarksgróða. Þegar stöðnun gerði vart við sig í framleiðslunni fyrir um 30 árum þurfti áfram að fjárfesta fyrir hámarksgróða. Þá þurfti auðvaldið að finna óplægða akra. Þar kom til einkavæðing á heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, lífeyriskerfinu, vegakerfinu, auðlindum, framtíðartekjum þjóðarinnar og flestu sem nöfnum tjáir að nefna. Í því skyni er fyrst búið til markaðsumhverfi með verðlagningu og sölukerfi kringum opinbera starfsemi. Þannig var sett á fót Sjúkratryggingastofnun Íslands fyrir nokkrum árum til að semja um kaup á sjúkraþjónustu, bæði frá einkaaðilum og opinberum stofnunum. En með þessari umgjörð er auðveldara að einkavæða þjónustuna. Þó vitað sé að það stórauki kostnaðinn er þessari stefnu haldið áfram til að nokkrir kapítalistar fái fjárfestingatækifæri.
Aukin markaðsvæðing, helst alger, er meginstefna Evrópusambandsins og á því byggist svokallað fjórþætt frelsi fjármagnsins. Fjármagnið á að hafa algert frelsi til að fjárfesta og raka saman gróða, en lýðræðislega kjörin stjórnvöld í hverju landi hafa minni völd til ákvarðana. Evrópusambandið er bandalag um alræði kapítalismans, um að einkavæða gróðann en velta tapinu yfir á herðar almennings gegnum ríkissjóð. Það auðveldar alþjóðlegum stórfyrirtækjum að sölsa undir sig auðlindir þjóðanna þegar tómir og stórskuldugir ríkissjóðir eru vanmegnugir að bregðast við jafnvel þó vilji væri til þess. Þannig tapa opinberir sjóðir enn frekar tekjumöguleikum og verða sífellt verr í stakk búnir til að sinna samfélagslegri þjónustu, sem aftur er notað til að knýja fram frekari einkavæðingu. Þannig verður til vítahringur sem færir öll verðmæti í samfélaginu í hendur fárra auðmanna og alþjóðlegra auðhringa.
Kaup Magma Energy á HS Orku virðist vera vel skiplögð flétta til að hraða slíku ferli og koma íslensku þjóðinni í þá stöðu að hún telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að samþykkja aðild að ESB. Svo þegar hún kemst að því að loforð Össurar og fleiri, um að aðild að ESB komi okkur undan kreppu, eru blekking, verður erfiðara að snúa við og slíta þræðina. Við ættum að vita núna að það er of dýrt að vera ekki vitur fyrr en eftir á. En við eigum margra kosta völ. Við getum lifað góðu lífi á því sem landið og miðin gefa, menntun okkar og vinnandi hendur. Jafnvel gjaldmiðillinn getur verið ágætur ef helmingnum af undirstöðu hans er ekki stolið jafnóðum af bröskurum.
Það er ekki smæðin sem hefur verið helsta vandamál í íslensku efnahagslífi. Helsta vandamálið hefur verið að hópur auðmanna og alþjóðlegra auðhringa hefur stolið út úr hagkerfinu öllu sem höndum verður á komið. Við höfum möguleika á að breyta því og berjast gegn auðvaldinu og alræði þess. En með aðild að Evrópusambandinu myndu þrengjast mikið möguleikar okkar til að berjast gegn alræði auðvaldsins og til að ákveða á lýðræðislegan hátt hvernig við viljum yfir höfuð lifa lífinu.
Samfylkingin gagnrýndi lengi að ekki mætti tala um Evrópusambandið. Samt sem áður hefur Samfylkingin aldrei staðið að upplýstri umræðu um ESB og hvað aðild að sambandinu þýðir í raun. Eftir að henni tókst að kaupa nægilega stóran hluta af þingflokki VG með ráðherrastólum til að samþykkja aðildarumsókn hefur hún þó nánast þagnað um málið.
Nokkrir VG þingmenn segjast vera andvígir aðild en vilja sjá hvað næst fram í samningi og fella hann svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. En umsóknarferlið er ekki bara samningaviðræður, heldur aðlögunarferli sem ætlað er að festa þjóðina í netinu og gera henni erfiðara fyrir að taka upplýsta ákvörðun á eigin forsendum. Hverju er líka að treysta um sjónarmið þessarra þingmanna þegar á hólminn kemur? Þegar tækifærissinnar fara á skrið veit enginn hvar þeir enda. Það er eins líklegt að margir af þingmönnum VG verði farnir að reka skilyrðislausan áróður fyrir inngöngu í ESB áður en við er litið. Sinnaskiptin geta þeir útskýrt með því að þeir hafi náð svo góðum samningum.
En þetta mál snýst ekki um góða eða slæma samninga. Það er í raun ekki um neitt að semja. Þetta mál snýst um það hvort við viljum geta lifað okkar eigin lífi hér í þessu landi í jafnvægi og sátt við náttúruna, eða hvort við viljum vera hjáleigubændur erlendra auðhringa og hafa lítið um okkar eigin mál að segja. Þetta snýst því um lýðræði, verndun umhverfisins, innviði samfélagsins og allt annað sem ákvarðar líf einnar þjóðar.
Þjóðin verður því að sýna árvekni og berjast gegn ESB-aðildinni á öllum stigum og láta ekki beygja sig. Íslensk alþýða þarf á pólitísku afli að halda sem hún getur treyst fyrir hagsmunum sínum í lengd og bráð, sem hún getur sjálf beitt til að skipuleggja baráttu sína gegn markaðsvæðingunni, fyrir eflingu hins félagslega í samfélaginu. Afl sem ekki selur lífsbjörg og framtíðarmöguleika þjóðarinnar fyrir stundarmetnað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 22.7.2010 | 22:47 | Facebook
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þið getið þá útskýrt afhverju frjálshyggjuarmurinn í Sjálfstæðisflokknum er á móti ESB. Öll stuttbuxnadeildin og sjálfur Sigurður Kári er á móti ESB og eru sammála ykkur.
Það er vegna þess að þeir segja að ESB er ekki nógu frjálslint.. ekki nógu mikið kapitlisti þar á bæ.
Þannig að með því að berjast gegn ESB einsog þið eruð að gera þá eruð þið að hjálpa Frjálshyggjuarminum í Sjálfstæðisflokknum.... eða er það kannski ætlunin?
Sleggjan og Hvellurinn, 5.8.2010 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.