Ágætu borgarar þessa lands!
Mig langar til að höfða til ykkar, sem hér eruð viðstödd, þegar ég vara við draumi markaðshyggjunnar um aðild að Evrópusambandinu. Það skiptir ekki máli hvort sú markaðshyggja vill kenna sig við hægri eða vinstri. Við höfum líka öll reynslu af því að það markaðshyggjusamfélag, sem hér hefur verið rekið á undanförnum árum, skilar okkur, almennum borgurum, engan veginn réttlátu þjóðfélagi!
Ég er ein af ykkur. Flest ykkar hafið sennilega fæðst hér eins og ég, alist hér upp og gert ykkar framtíðarplön út frá því að hér væri gott að búa. Sjálf ólst ég upp í íslenskri sveit, sótti alla mína menntun hérlendis og hef alið hér manninn alla tíð. Þó útþráin hafi stundum togað í mig þá ákvað ég að vera hér kyrr. Það sem réð mestu í því sambandi voru börnin mín. Mér fannst það nefnilega vera eigingirni af minni hálfu ef ég sliti þau upp og flytti þau burt frá rótum sínum.
En nú er allt breytt! Ég reikna líka með að flest ykkar deilið áhyggjum mínum af framtíð kynslóðanna í þessu landi með mér. Ógnirnar sem að okkur steðja eru margvíslegar en frá mínum bæjardyrum séð er markaðshyggjan, sem setti okkur í þau spor sem við stöndum í núna, rót þeirra allra. Draumurinn um að tilheyra Evrópusambandinu er ein af þeim alvarlegri því að ef af verður þá höfum við ofurselt okkur lögmálum markaðarins þar með um ókomna framtíð.
Ég hef alltaf goldið varhug við því að setja örlög mín í hendur fjöldaframleiddra fræðinga í háreistum skrifstofubyggingum. Það er því síst til að draga úr áhyggjum mínum varðandi framtíðina þegar það á að setja örlög heillar þjóðar í hendurnar á þannig liði! Takið líka eftir því að við erum að tala um lið þar sem æðstu stjórnendurnir verða staðsettir í allt öðru landi! Þetta lið er í aðalatriðum skipað langskólagengnum fræðingum sem ég leyfi mér í fullri alvöru að efast um að hafi kynnst þeim yfirgripsmikla veruleika sem þeir eru að fást við nema af Exel-skjölum framan á tölvuskjá.
Íslensk stjórnvöld, með Samfylkinguna í fararbroddi, keppast samt við að selja okkur þá hugmynd að okkur sé best borgið í exelskjalabólstruðum faðmi slíks fræðimannahers sem Evrópusambandsbáknið er. Einn ráðherra Samfylkingarinnar hefur meira að segja reynt að halda því fram að hér hefði aldrei skollið á nein kreppa ef við hefðum þegar verið gengin inn í sambandið! Eins og þið áttið ykkur á er ég að vísa til orða núverandi utanríkisráðherra sem höfð voru eftir honum fyrir ekki svo löngu síðan.
Maður sem tók þátt í að setja landið á hausinn með heimsku sinni er ekki maður sem mér þykir vert að hlusta á! Skiptir engu þó hann hafi af einhverjum ástæðum verið gerður að utanríkisráðherra! Þeir sem hafa lesið tilsvör hans í Rannsóknarskýrslunni, 7. bindinu, velkjast varla í vafa um það að Össur Skarphéðinsson hefur ekki hundsvit á því sem hann er að fást við! Það er því út í hött að taka nokkurt mið af því sem hann segir um ástand efnahagsmála í fortíð, nútíð eða framtíð enda er haft eftir honum í Skýrslunni að hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum! (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar)
Það þarf ekki nema meðalskynsemi til að skilja það að maður bankar ekki upp á í fullbyggðu húsi á nærbuxunum einum fata og býður upp á sambúð! Hins vegar er rétt að benda á það að þó Evrópusambandið líti út fyrir að vera fullbyggt hús þá eru innviðir þess allt annað en glæsilegir enda eru þeir af sama efni og settu hér allt á hausinn haustið 2008. Innviðirnir í þeirra húsum eru líka teknir að fúna.
Það nægir að líta til nokkurra nágranna okkar til að átta sig á þessari stað- reynd. Ég læt mér nægja að minna á Írland og Grikkland í þessu sambandi og spyr mig og ykkur öll: Að hvaða leyti er staða okkar nú verri en þeirra þjóða sem byggja þessi lönd? Er líklegt miðað við það hvernig hefur verið brugðist við þeim vanda sem hefur steðjað að hagkerfum þessara þjóða að okkur sé betur borgið í Evrópu- sambandinu? Ég segi: NEI!
Evrópusambandið og ungur gjaldmiðill þess riða til falls og mun taka þær þjóðir sem hafa ánetjast því með sér! Það verður fámenn auðmannastétt sem hagnast á falli þess en hinn almenni borgari mun standa eftir fátækari en nokkru sinni. Evrópusambandið varð heldur ekki til í því markmiði að bæta lífskjör hins almenna borgara heldur til að stjórna markaðinum og í þeim tilgangi hafa æðstu stjórnendur þess gefið út ótrúlegt langlokuregluverk um hvaðeina.
Regluverk Evrópusambandsins hefur sett danska blómaræktendur á hausinn en tryggt Hollendingum einokunarstöðu á blómamarkaðinum. Ávaxtaframleiðendur víða á Evrópusvæðinu geta ekki lengur keppt við þá sem búa við Miðjarðarhafið vegna staðla Evrópusambandsins sem kveða m.a. á um það hvernig lögun og lengd bananans á að vera til að hann lendi í söluvænlegasta flokknum.
Ef við göngum inn í Evrópusambandið þurfa íslenskir bændur, meðal annarra, að taka mið af reglum sambandsins varðandi það hvað má bera á tún og hvaða fóður skepnur eiga að nærast á. Svo nokkur dæmi séu tekin. Samkvæmt reglum sambandsins má t.d. ekki nýta innihald haughússins til að bera á tún og kálfar sem eru aldir upp fyrir kjötmarkaðinn má ekki setja í hagagöngu.
Síðasta dæmið sem ég nefni hér sel ég ekki dýrara en ég keypti það. En það er að staðlaráð Evrópusambandsins hefur m.a.s. gefið út nákvæm fyrirmæli um það hvað fætur undir stólum eiga að vera margir til að þeir geti talist til slíkra. Hvaða stólahönnuður ætli hafi komið þessu þröngsýnissjónarmiði sínu að inn í reglugerðarfarganið?
Ég gæti haldið upptalningu af þessu tagi áfram en þessi ætti að duga til að færa ykkur heim sanninn um það að það að ganga inn í Evrópusambandið tryggir okkur ekki fyrir því sem varð íslensku hagkerfi að falli! Þ.e. einkavinavæðingunni og/eða krosstengslunum. Í kerfi sem byggist á markaðinum þá verða alltaf einhverjir sem reyna að sölsa hann undir sig með áhrifum sínum, völdum og peningum. Markaðskerfið sem Evrópusambandið byggir á er ekkert öðru vísi hvað það varðar!
Til að draga það enn skýrar fram hvers vegna ég er á móti inngöngu inn í Evrópusambandið vil ég undirstrika það að af gildum ástæðum, sem öll þjóðin hefur reynt á eigin skinni, þá trúi ég ekki á þau lögmál markaðarins sem sambandið byggir á. Ég trúi heldur engan veginn á sanngirni reglugerðarfargansins sem sambandið hefur smíðað utan um hann.
Ég minni á að saga okkar geymir reynslu forfeðra okkar af því að fela öðrum stjórn landsins. Ég efast um að við verðum í reynd mikið betur stödd með ákvarðanatöku varðandi öll mikilvægustu mál lands og þjóðar í háreistri skrifstofubyggingu í Brussel en við vorum þegar við vorum undir nágrönnunum í Kaupmannahöfn. Ég leyfi mér að efast um að einokunarverslun undir flaggi ESB eigi eftir að reynast okkur mikið betur en sú sem var rekin hér í aldaraðir undir því danska.
Það vekur mér líka mjög mikla tortryggni að þjóð sem kemur á nærbuxunum og biður um Evrópusambandsaðild skuli yfir höfuð fá áheyrn! En þegar betur er að gáð þá erum við nefnilega alls ekki eins illa stödd og af er látið! Lítið allt í kringum ykkur og munið eftir forferðum okkar sem þrátt fyrir enga tæknikunnáttu gátu tórað hér undir danskri einokun. Þeir höfðu ekkert að treysta á nema það sem landið gaf af sér og eigið þolgæði.
Við höfum hér allt til alls til að lifa hér góðu lífi! Við eigum nú þegar gríðarlega öfluga matvælaframleiðslu sem við nýtum okkur þó engan veginn til fulls. Við gætum t.d. framleitt allt okkar grænmeti sjálf! Ef við höguðum okkur skynsamlega þá gætum við t.d. nýtt jarðvarmaorkuna frá Þeystareykjum fyrir grænmetisver á Húsavík í stað þess að samþykkja að hún verði nýtt til að knýja enn eitt álverið!
Við eigum enn þá: fiskinn, vatnið, jarðvarmann og fallvötnin en þetta er allt í bráðri hættu ef þjóðin ætlar að fljóta sofandi að þeim feigðarósi sem markaðshyggjuöflin innan hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórn stefnir okkur í.
Ég hvet ykkur hvert og eitt ykkar til að spyrna við fótum og vakna til meðvitundar um það hverjum er best treystandi fyrir framtíð þinni og afkomenda þinna.
Ég fullyrði að framtíð okkar er engan veginn skynsamlega tryggð með því að setja hana í hendurnar á skrifstofubákni sem er stjórnað af erlendum fræðingaher Evrópusambandsins!
Af öllu framansögðu ætti að vera ljóst hvers vegna ég hafna alfarið inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið!
Ég þakka áheyrnina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 20.7.2010 | 13:02 | Facebook
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.