Hér birtist ræða Önnu Ólafsdóttur Björnsson, flutt á útifundi Rauðs vettvangs gegn ESB-aðild 16. júlí sl. Ræður Rakelar og Þorvalds birtast innan skamms, sem og ályktun fundarins.
Ég er Íslendingur, ég er alþjóðasinni, ég er Evrópusinni en ég er EKKI Evrópusambandssinni. Þess vegna tala ég hér í dag á árs afmæli hinnar herfilega misráðnu ákvörðunar að taka upp aðildarviðræður við ESB.
Fyrir einu og hálfu ári varð hér á landi merkileg lýðræðisbylting. Ein af helstu kröfunum var að færa valdið nær almenningi. En á þessum degi fyrir ári var skref stigið í þveröfuga átt með aðildarumsókn að ESB. Erfitt er að hugsa sér eina aðgerð sem færði valdið fjær almenningi en einmitt aðild að ESB.
Það lýsir sér meðal annars í því að flestar mikilvægar ákvarðanir eru teknar annað hvort af embættismönnum sem þurfa aldrei að standa skil á gerðum sínum gagnvart þeim sem ákvarðanirnar varða EÐA það sem er kannski enn verra, af okkar eigin ráðherrum innan ráðherraráðs ESB, þar sem þeir geta skýlt sér á bak við leyndina sem hvílir á ákvarðanatöku í ráðherraráðinu. Þeir sem hafa litla trú á getu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma til að taka réttar ákvarðanir vita kannski ekki að með inngöngu í ESB færum við úr öskunni í eldinn, því þá myndu ráðherrar ríkisstjórnar Íslands geta skýlt sér á bak við ESB og hætt að þurfa að svara fyrir gerðir sínar gagnvart þjóðinni í veigamiklum málum.
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins er hrollvekjandi lítil, enda má finna vonleysi og uppgjöf hjá þeim sem vilja reyna að hafa áhrif á stjórnmál innan ESB-landanna. Þátttaka í kosningunum 2009 var rétt rúmlega 43% og hafði fallið um 20% á 30 árum, fellur venjulega um 3% milli hverra kosninga og upp í 7%. Í sumum löndum er hún enn minni. Á sama tíma er þátttaka í kosningum til þjóðþinga í álfunni næstum helmingi meiri eða um 75%. Máttleysi, valdaleysi, er það það sem við viljum?
Í þónokkur ár starfaði ég náið með Evrópusambandsandstæðingum víðs vegar í álfunni og það var sláandi að heyra í félögum mínum innan ESB sem sáu ekki að unnt yrði að breyta þessari þróun að nokkru gagni. Og þessi aðkoma, Evrópuþingið, er jafnframt fremur valdalaus stofnun, en sú eina sem hægt er að kjósa til. Og á þessu þingi myndi Ísland, innan ESB, aðeins eiga örfáa þingmenn, líklegast sex af 750, kannski færri, ekki fleiri. Máttleysi, valdaleysi, er það það sem við viljum?
Á því eina ári sem liðið er síðan þessi slæma ákvörðun var tekin, að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, hefur margt gerst. Í ljós hefur komið að evran er ekki töfralausn og á evrusvæðinu finnst vandi sem lýsir sér um margt svipað og hjá okkur, eins og í Grikklandi, og eins enn verri vandi, atvinnuleysi, jafnvel upp í 20-30 % og enn meira meðal unga fólksins.
Það er reynt að blekkja. Aftur er hafinn söngurinn um að ef við hefðum verið í ESB hefði efnahagshrunið ekki dunið á okkur. Söngur sem þagnaði um stund en er nú aftur hafinn í hálfgerðri örvæntingu. Gylliboð, órökstuddar staðhæfingar, áróður, boðsferðir og fjáraustur ESB okkur til handa er það sem við megum búast við ef við höldum áfram í aðildarviðræðum.
Ég ætla rétt að vona að við séum ekki þjóð sem ekki lætur plata sig aftur. Við vitum að gull og grænir skógar finnast hvorki né spretta upp úr engu. Það er ekki til einhver töfralausn sem kippir öllu í lag og allra síst er hún ESB-aðild.
Við fáum líka okkar skerf af hótunum: Við viljum fá ykkur í ESB hið snarasta, að vísu verðið þið kannski að sæta afarkostum í Icesave í leiðinni. Og nýjasta, matreitt innanlands: Okkur verður hent út úr EES ef við hættum við aðildarumsókn. Og hvað með það? Sviss hafnaði EES og fékk tvíhliða samning en er nú að íhuga EES-þátttöku. Hversu líklegt er þá að okkur yrði hent út úr EES, ef við viljum vera þar áfram?
Margir, ekki síst sumir sem eru í hjarta sér andvígir aðild að ESB, létu sig dreyma um að aðildarumsókn myndi efla þroskaða umræðu um kosti og galla aðildar. Og vissulega hafa ýmsir reynt að halda þessari umræðu á lofti. Það er ekki hörgull á góðri umræðu (og reyndar óvandaðri líka), heldur vantar mikið á að almenningur taki þátt í henni. Segir það ekki allt sem segja þarf? Staðreyndin er sú að þorri fólks VILL ekki ræða ESB, það vill ekki að tími og orka ráðuneyta, stjórnmálamanna og peningarnir okkar fari í að sinna þessu gæluverkefni sumra.
Eru ekki ærin verkefni óleysi í þessu landi? Hættum þessari tímaeyðslu og snúum okkur að verðugri verkefnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 19.7.2010 | 23:30 | Facebook
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.