Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ræða Skúla

Hlutirnir breytast hratt á krepputímum. Nú hefur ólgan, sem kraumað hefur undir í íslensku samfélagi frá búsáhaldabyltingu, leitað upp á yfirborðið af fullum þunga og sprungið út í fjöldamótmælum. En hver er ástæðan fyrir þessari ólgu? Er hún ekki sú að íslenskur almenningur, rétt eins og almenningur á Grikklandi og Spáni, er búinn að fá nóg af því að bera byrðarnar af fjármálakreppu kapítalismans? Á meðan þeir auðkýfingar, sem rökuðu saman metgróða í góðærinu með því að búa til staðlausa eignabólu, fá milljarða skuldir niðurfelldar í bönkunum, standa mörg hundruð fjölskyldur nú frammi fyrir því að missa heimili sín á nauðungaruppboðum. Fjármálaráðherra kallar fjárlög þessa árs „hrunlög“, því sá djúpi niðurskurður á almannaþjónustu sem þau boði sé stærsta innborgunin af gjaldinu sem við greiðum fyrir hrunið. En fyrir hvað erum við að greiða? Eignabólu og ábyrgðarlausar fjárfestingar auðmanna!

Fjármálaráðherra kallar ríkisstjórnina ábyrga velferðarstjórn. Mér finnst ekkert ábyrgt við það að ætla að leyfa mörg hundruð heimilum að lenda á nauðungaruppboðum, til að þóknast fulltrúum AGS. Sömuleiðis finnst mér það ábyrgðarleysi að vega meira að velferðarkerfinu, einmitt þegar það er mikilvægast. Það mun aðeins auka hér á félagsleg vandamál sem verða erfiðari viðfangs síðar. Niðurskurðurinn mun einnig auka atvinnuleysi, sem er ekki það sem við þurfum á að halda, það mun aðeins dýpka kreppuna. Íslenska fjármálaelítan hefur þegar reynst okkur nógu kostnaðarsöm. Við megum ekki láta ábyrgðarleysi hennar, og vilja stjórnvalda til að þjóðnýta tap þessarar elítu, kosta okkur hér grundvallarmannréttindi eins og réttinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu; bestu mögulegu menntunar og síðast en ekki síst réttinum til að geta séð fyrir sér og sínum með öruggri atvinnu.

Við eigum ekki að þurfa að færa fjármálamörkuðunum frekari fórnir. En vandinn snýst ekki um einstaka auðmenn, þeir voru aðeins að gera það sem grískir og írskir kollegar þeirra gera einnig, raka saman fé á kostnað almennings. Dýpt og umfang kreppunnar á Grikklandi, þær kjaraskerðingar sem ganga nú yfir grískan almenning og það harkalega niðurskurðarprógram sem verið er að keyra í gegn undir handleiðslu AGS, sýnir að gríska fjármálaelítan reynist samlöndum sínum heldur betur dýr í rekstri. Eignabólan á Írlandi sem keyrð var áfram á skuldsetningu hefur valdið efnahag Íra þungum búsyfjum. Írland fór hratt úr nánast fullri atvinnuþátttöku yfir í rúmlega 10% atvinnuleysi, og írska ríkið er í hættu á að gjaldfalla á eigin skuldum, skuldum sem írska fjármálaelítan stofnaði til. Vandinn liggur í kerfi sem gerir einstaklingum kleift að nota hagkerfið sem sitt einkaspilavíti á meðan aðrir taka tapið út í atvinnumissi og öðrum kjaraskerðingum. Krepputihneigingin er innbyggð í kapítalismann. Bólur eins og íslenska eignabólan, írska eignabólan og húsnæðisbólan í Bandaríkjunum, svo dæmi séu nefnd, geta ekki vaxið út í hið óendanlega.

Við tryggjum hér best velferð til framtíðar með því að vinda ofan af orsökum kreppunnar, þ.e. kapítalismanum og markaðsvæðingu samfélagsins. Með aukinni félagsvæðingu og félagslegum rekstri sem lýtur lýðræðislegri stjórn og eftirliti launafólks. Vil ég þar helst nefna fjármálakerfið, velferðar- og menntakerfið auk nýtingarréttar á auðlindum. Við þurfum að skipuleggja atvinnulífið þannig að allir vinnufærir einstaklingar geti unnið fyrir sér og lifað með reisn. Við þurfum að skapa hér samfélag sem býður ungu fólki upp á annað en atvinnuleysi og stöðnun. Fólk á ekki að upplifa sig valdalaust í lýðræðisríki. Við þurfum að skipuleggja baráttu okkar fyrir brýnum hagsmunamálum og fyrir raunverulegum samfélagsbreytingum. Við þurfum að skapa hér sterkt stjórnmálaafl sem er fært um, og treystir sér til, að standa vörð um hagsmuni launþega og annars almennings, og taka þá hagsmuni alltaf fram yfir hagsmuni fjármálaelítunnar.

Við, íslenskur almenningur, berum enga ábyrgð á hruninu, en berum hins vegar ábyrgð á hvert við stefnum með þetta samfélag í framtíðinni. Við berum líka ábyrgð á athöfnum okkar í dag. Með skipulagðri baráttu getum við knúið fram nauðsynlegar samfélagsbreytingar.

Þessa ræðu flutti Skúli Jón Unnar- og Kristinsson á útifundi Rauðs vettvangs á Lækjartorgi þann 6. október síðastliðinn.


Ályktanir Baráttudaga í október

Ráðstefnan "Baráttudagar í október", sem Rauður vettvangur hélt síðastliðinn laugardag, 9. október, samþykkti tvær ályktanir, sem hafa verið sendar fjölmiðlum til birtingar. Í fyrsta lagi er almenn stjórnmálaályktun um kreppuna og kapítalismann og síðan fer sérstök ályktun um ofsóknir gegn hinum svokölluðu nímenningum:

Ályktun ráðstefnu Rauðs vettvangs um kreppuna og kapítalismann

Þau tvö ár sem liðin eru frá hruni íslenska bankakerfisins hafa öll máttarvöld auðvaldsins reynt að breiða yfir þá staðreynd að kreppan er óumflýjanlegt afkvæmi auðvaldsskipulagsins.

Fjármálavæðing efnahagslífsins var engin tilviljun eða fyrir tilverknað einstakara einstaklinga. Hún þróaðist á löngum tíma vegna stöðnunar í framleiðslugeiranum eins og í öðrum löndum. Arðránið á almenningi er orsök kreppunnar. Það er því engin lausn á kreppunni að moka almannafé í bankana og stórfyrirtæki til að bjarga þeim en velta afleiðingum kreppunar yfir á almenning. Það eykur bara á vítahringsáhrif kreppunnar eins og nú er verulega farið að sýna sig, þar sem þúsundir fjölskyldna standa nú frammi fyrir gjaldþroti og algerum eignamissi.

Það var augljóst fyrir 2 árum að til að afstýra þessum aðstæðum yrði að koma til leiðréttinga á húsnæðislánum almennings í stað þess að beygja sig fyrir erlendu og innlendu auðvaldi og ausa í það almannafé. Þó að ríkisstjórnin sýni nú, undir miklum þrýstingi, vissa tilburði til að stíga skref í þessa átt er ekkert sem bendir til að hún muni breyta meiru en þarf til að allt haldist óbreytt.

Eina leiðin til að vinda ofan af orsökum kreppunnar er að útrýma spákaupmennskunni og félagsvæða efnahagslífið á sem flestum sviðum. Það er ekki hægt að fara bil beggja. Fjármálaauðvaldið fer sínu fram og heldur áfram að arðræna fjöldann. Baráttan gegn auðvaldinu verður að eflast, verða meðvitaðri og markvissari og skjóta rótum innan verkalýðshreyfingarinnar og annarra fjöldasamtaka.

Rauður vettvangur vill taka höndum saman við öll þau öfl sem vilja berjast gegn alræði auðaldsins og fyrir auknum lífsgæðum almennings, fyrir aukinni félagsvæðingu í samfélaginu og valdi til alþýðunnar á kostnað auðvaldsins.

                    Reykjavík 9. október 2010
                    Rauður vettvangur 


Ályktun ráðstefnu Rauðs vettvangs um pólitískar ofsóknir gegn mótmælendum

Rauður vettvangur fordæmir ofsóknir íslenska ríkisins og íslenskra fjölmiðla gegn nímenningunum, sem valdir voru af handahófi úr hópi mótmælenda í desember 2008. Með uppspunnum ásökunum um árás á Alþingi eru þeir gerðir að blórabögglum til að breiða yfir getuleysi stjórnvalda og hræða almenning frá þátttöku í alvarlegum pólitískum mótmælum.

Þeir sem ollu kreppunni með botnlausu arðráni á almenningi halda því áfram eins og ekkert hafi í skorist meðan réttarkerfið reynir að koma landráðastimpli á saklaust fólk. Á sama tíma stefnir í að samverkamenn og vitorðsmenn komi hinum pólitísku sökudólgum undan.

Rauður vettvangur tekur undir mótmæli sem víða hafa komið fram í samfélaginu gegn þessu réttarfari og krefst þess að þessi fáránlega ákæra verði dregin til baka og nímenningarnir beðnir opinberlega afsökunar.

                    Reykjavík 9. október 2010
                    Rauður vettvangur


Ályktun útifundar Rauðs vettvangs á Lækjartorgi 6. október 2010

Þau tvö ár sem liðin eru frá hruni íslenska bankakerfisins hefur fjármálaauðvaldið notað til að koma undan eign auði og velta afleiðingum kreppunnar yfir á almenning.

Það er gert með launalækkunum, verðhækkunum, innheimtu stökkbreyttra húsnæðislána og loks með því að knýja þúsundir alþýðufjölskyldna í gjaldþrot. Og síðast en ekki síst með því að velta hundruðum milljarða af skuldum einkafyrirtækja yfir á ríkissjóð og meðfylgjandi skattpíningu á alþýðunni.

Gerræðisleg einkavæðing á undanförnum árum átti drjúgan þátt í að dýpka kreppuna en samt er haldið áfram að einkavæða og auka skuldsetningu samfélagsins.

Kreppan er skilgetið afkvæmi auðvaldsskipulagsins og því getur leiðin út úr henni aðeins legið gegnum félagsvæðingu efnahagskerfisins og aukinn jöfnuð frá grunni.

Til þess þarf öflugt rautt stjórnmálaafl sem hefur enga aðra hagsmuni en hagsmuni alþýðunnar og getur leit baráttuna gegn auðvaldinu og kreppu þess.

Látum auðvaldið borga kreppuna!


Baráttudagar í október

Baráttudagar í október 2010 – útifundur og ráðstefna

Af því tilefni að tvö ár eru liðin frá íslenska efnahagshruninu, efnir Rauður vettvangur til Baráttudaga í október – útifundar og ráðstefnu um ástandið, rætur vandans og mögulegar lausnir. Sérstakur gestur Baráttudaga er Julie Malling frá danska Kommúnistaflokknum.

Látum auðvaldið borga sína kreppu!
Útifundur á Lækjartorgi miðvikudag 6. október kl. 17
Ræður:          Julie Malling, danskur kommúnisti
                    
Skúli Jón Kristinsson, háskólanemi
                    
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Attac og VG í Reykjavík

Kreppan og kapítalisminn
Ráðstefna í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardag 9. október kl. 10-18
Framsögur:    Ásmundur Einar Daðason, bóndi og alþingismaður
                    
Julie Malling, danskur kommúnisti
                    
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari
                    
Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Rauðs vettvangs
                    
Þór Saari, hagfræðingur og alþingismaður

Hópastarf, umræður og sameiginlegur kvöldverður
Aðgangur ókeypis

Nánari upplýsingar veitir Þorvaldur Þorvaldsson, s. 8959564


Kvikmyndasýning og fundur um fjármálavæðingu í Friðarhúsi, þriðjudag 27. júlí kl. 18

Rauðum sumarbúðum hefur verið aflýst í ár. Rauður vettvangur heldur í staðinn fund og kvikmyndasýningu í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, þriðjudaginn 27. júlí kl. 18.

Dagskrá:
   Kl. 18.      The Shock Doctrine. Heimildarmynd eftir samnefndri bók Naomi Klein.
   Kl. 19.15  Matur á vægu verði.
   Kl. 20       Framsögur og umræður um frjálshyggjuna og fjármálavæðinguna
                   Framsögumenn:
                   Sólveig Anna Jónsdóttir, stjórnarmaður í RV og formaður ATTAC
                   Þórarinn Hjartarson, sagnfræðingur með fleiru.

Nýútkominn bæklingur eftir Þórarin um fjármálavæðinguna á Íslandi verður fáanlegur á staðnum ásamt fleira efni.

Allir eru velkomnir.

Ræða Þorvalds

Þessa ræðu flutti Þorvaldur Þorvaldsson á útifundi Rauðs vettvangs gegn ESB, sem haldinn var á Lækjartorgi föstudaginn 16. júlí 2010.

Félagar.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hélt því fram nýverið að ef Íslendingar hefðu fylgt hans ráðum og gengið í Evrópusambandið fyrir nokkrum árum væri hér engin kreppa. Og sérstaklega ætti þetta við ef við hefðum tekið upp evruna. Það er auðvelt að halda fram svona fjarstæðu í hópi jábræðra þar sem enginn hreyfir andmælum. Þar sem enginn spyr hvers vegna sé þá svona djúp kreppa í Lettlandi, Grikklandi og mörg önnur ríki í Evrópusambandinu eru djúpt sokkin í skuldafen sem á rætur sínar að rekja til inngöngu þeirra í ESB.

Fyrir mánuði síðan var ég í Grikklandi á andspyrnuhátíð gegn kreppupólitíkinni. Þar er andúðin á ESB aðilinni orðin mikil og umræða hafin um úrsögn úr sambandinu. Enda er gríska þjóðin að glata yfirráðunum yfir eigin samfélagi í hendur erlendra auðhringa og lítur í vaxandi mæli á aðildina að ESB sem aðra innrás Þjóðverja. Alþjóðaflugvöllurinn í Aþenu er í eigu Þjóðverja. Vegurinn að flugvellinum er einnig í eigu Þjóðverja sem rukka vegatoll. Þýskir og alþjóðlegir auðhringar sölsa undir sig fleiri og fleiri fyrirtæki sem mörg hver hafa mikla samfélagslega þýðingu.

Sama þróun á sér stað hér á landi. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu auðveldaði klíkum auðmanna að skuldsetja þjóðina sem nemur margfaldri landsframleiðslu eins og flestir þekkja. En þessir miklu skuldafjötrar eru engin tilviljun. Þeir eru ekki vegna þess að viðkomandi þjóðir séu allt í einu orðnar svona spilltar og latar að þær séu ekki matvinnungar.

Auðvaldsskipulagið byggist á arðráni. Fjármagnið verður alltaf að skila hámarksgróða sem aftur þarf að vera hægt að fjarfesta fyrir hámarksgróða. Þegar stöðnun gerði vart við sig í framleiðslunni fyrir um 30 árum þurfti áfram að fjárfesta fyrir hámarksgróða. Þá þurfti auðvaldið að finna óplægða akra. Þar kom til einkavæðing á heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, lífeyriskerfinu, vegakerfinu, auðlindum, framtíðartekjum þjóðarinnar og flestu sem nöfnum tjáir að nefna. Í því skyni er fyrst búið til markaðsumhverfi með verðlagningu og sölukerfi kringum opinbera starfsemi. Þannig var sett á fót Sjúkratryggingastofnun Íslands fyrir nokkrum árum til að semja um kaup á sjúkraþjónustu, bæði frá einkaaðilum og opinberum stofnunum. En með þessari umgjörð er auðveldara að einkavæða þjónustuna. Þó vitað sé að það stórauki kostnaðinn er þessari stefnu haldið áfram til að nokkrir kapítalistar fái fjárfestingatækifæri.

Aukin markaðsvæðing, helst alger, er meginstefna Evrópusambandsins og á því byggist svokallað fjórþætt frelsi fjármagnsins. Fjármagnið á að hafa algert frelsi til að fjárfesta og raka saman gróða, en lýðræðislega kjörin stjórnvöld í hverju landi hafa minni völd til ákvarðana. Evrópusambandið er bandalag um alræði kapítalismans, um að einkavæða gróðann en velta tapinu yfir á herðar almennings gegnum ríkissjóð. Það auðveldar alþjóðlegum stórfyrirtækjum að sölsa undir sig auðlindir þjóðanna þegar tómir og stórskuldugir ríkissjóðir eru vanmegnugir að bregðast við jafnvel þó vilji væri til þess. Þannig tapa opinberir sjóðir enn frekar tekjumöguleikum og verða sífellt verr í stakk búnir til að sinna samfélagslegri þjónustu, sem aftur er notað til að knýja fram frekari einkavæðingu. Þannig verður til vítahringur sem færir öll verðmæti í samfélaginu í hendur fárra auðmanna og alþjóðlegra auðhringa.

Kaup Magma Energy á HS Orku virðist vera vel skiplögð flétta til að hraða slíku ferli og koma íslensku þjóðinni í þá stöðu að hún telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að samþykkja aðild að ESB. Svo þegar hún kemst að því að loforð Össurar og fleiri, um að aðild að ESB komi okkur undan kreppu, eru blekking, verður erfiðara að snúa við og slíta þræðina. Við ættum að vita núna að það er of dýrt að vera ekki vitur fyrr en eftir á. En við eigum margra kosta völ. Við getum lifað góðu lífi á því sem landið og miðin gefa, menntun okkar og vinnandi hendur. Jafnvel gjaldmiðillinn getur verið ágætur ef helmingnum af undirstöðu hans er ekki stolið jafnóðum af bröskurum.

Það er ekki smæðin sem hefur verið helsta vandamál í íslensku efnahagslífi. Helsta vandamálið hefur verið að hópur auðmanna og alþjóðlegra auðhringa hefur stolið út úr hagkerfinu öllu sem höndum verður á komið. Við höfum möguleika á að breyta því og berjast gegn auðvaldinu og alræði þess. En með aðild að Evrópusambandinu myndu þrengjast mikið möguleikar okkar til að berjast gegn alræði auðvaldsins og til að ákveða á lýðræðislegan hátt hvernig við viljum yfir höfuð lifa lífinu.

Samfylkingin gagnrýndi lengi að ekki mætti tala um Evrópusambandið. Samt sem áður hefur Samfylkingin aldrei staðið að upplýstri umræðu um ESB og hvað aðild að sambandinu þýðir í raun. Eftir að henni tókst að kaupa nægilega stóran hluta af þingflokki VG með ráðherrastólum til að samþykkja aðildarumsókn hefur hún þó nánast þagnað um málið.

Nokkrir VG þingmenn segjast vera andvígir aðild en vilja sjá hvað næst fram í samningi og fella hann svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. En umsóknarferlið er ekki bara samningaviðræður, heldur aðlögunarferli sem ætlað er að festa þjóðina í netinu og gera henni erfiðara fyrir að taka upplýsta ákvörðun á eigin forsendum. Hverju er líka að treysta um sjónarmið þessarra þingmanna þegar á hólminn kemur? Þegar tækifærissinnar fara á skrið veit enginn hvar þeir enda. Það er eins líklegt að margir af þingmönnum VG verði farnir að reka skilyrðislausan áróður fyrir inngöngu í ESB áður en við er litið. Sinnaskiptin geta þeir útskýrt með því að þeir hafi náð svo góðum samningum.

En þetta mál snýst ekki um góða eða slæma samninga. Það er í raun ekki um neitt að semja. Þetta mál snýst um það hvort við viljum geta lifað okkar eigin lífi hér í þessu landi í jafnvægi og sátt við náttúruna, eða hvort við viljum vera hjáleigubændur erlendra auðhringa og hafa lítið um okkar eigin mál að segja. Þetta snýst því um lýðræði, verndun umhverfisins, innviði samfélagsins og allt annað sem ákvarðar líf einnar þjóðar.

Þjóðin verður því að sýna árvekni og berjast gegn ESB-aðildinni á öllum stigum og láta ekki beygja sig. Íslensk alþýða þarf á pólitísku afli að halda sem hún getur treyst fyrir hagsmunum sínum í lengd og bráð, sem hún getur sjálf beitt til að skipuleggja baráttu sína gegn markaðsvæðingunni, fyrir eflingu hins félagslega í samfélaginu. Afl sem ekki selur lífsbjörg og framtíðarmöguleika þjóðarinnar fyrir stundarmetnað.


Höfnum ESB!

Ályktun útifundar Rauðs vettvangs á Lækjartorgi 16. júlí 2010

Nú þegar ár er liðið frá því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu var knúin gegnum Alþingi með hrossakaupum og heildsölu á atkvæðum þingmanna, er augljóst að ferlið er í mikilli kreppu.

Þjóðin er að stórum hluta afhuga aðild að ESB og ráðamenn í Brussel eru tvístígandi en þrýsta á íslensk stjórnvöld að berja þjóðina til hlýðni. Auðvaldið í ríkustu löndum ESB sér Ísland sem útrásartækifæri fyrir sig. Það vill innlima landið til að fá aðgang að norðurskautinu og jafnframt að markaðsvæða hér allt sem ennþá er félagslegt, hafa af okkur lífsbjörgina og gera okkur að hjáleigubændum til frambúðar.

Utanríkisráðherra hélt því fram nýverið að ef Ísland hefði gengið í ESB fyrir nokkrum árum væri hér engin kreppa. Þetta er augljóst lýðskrum og þvættingur sem best sést á því að kreppan fer nú sem eldur í sinu um flest aðildarlönd ESB sem eiga það sameiginlegt að hafa drukknað í skuldum í kjölfar aðildar að ESB og glatað innviðum samfélagsins í hendur braskara.

Það er því vonlegt að íslenska þjóðin geri sér æ betur grein fyrir þeim hættum sem aðild að ESB felur í sér. En ráðamenn í Reykjavík og Brussel taka ekki NEI sem gilt svar og vinna því hörðum höndum að aðlögunarferli sem ætlað er að þvinga þjóðina til aðildar. Þar eru meðölin ekki öll vönduð, eins og nýlega var upplýst um aðild iðnaðarráðuneytisins að Magma-málinu.

Íslenska þjóðin hefur því þörf fyrir ítrustu árvekni, samstöðu og baráttuþrek til að koma í veg fyrir að hún verði þvinguð til þrældóms fyrir evrópska auðvaldið til langrar framtíðar. Rísum upp og höfnum ESB.


Draumur markaðshyggjunnar um Evrópusambandsaðild

Hér birtist ræða Rakelar Sigurgeirsdóttur, sem hún flutti á útifundi Rauðs vettvangs sl. föstudag. Myndskreytingar og leturbreytingar eru höfundar.

Ágætu borgarar þessa lands!

Breyttur fáni ESB Mig langar til að höfða til ykkar, sem hér eruð viðstödd, þegar ég vara við draumi markaðshyggjunnar um aðild að Evrópusambandinu. Það skiptir ekki máli hvort sú markaðshyggja vill kenna sig við hægri eða vinstri. Við höfum líka öll reynslu af því að það markaðshyggjusamfélag, sem hér hefur verið rekið á undanförnum árum, skilar okkur, almennum borgurum, engan veginn réttlátu þjóðfélagi!

Ég er ein af ykkur. Flest ykkar hafið sennilega fæðst hér eins og ég, alist hér upp og gert ykkar framtíðarplön út frá því að hér væri gott að búa. Sjálf ólst ég upp í íslenskri sveit, sótti alla mína menntun hérlendis og hef alið hér manninn alla tíð. Þó útþráin hafi stundum togað í mig þá ákvað ég að vera hér kyrr. Það sem réð mestu í því sambandi voru börnin mín. Mér fannst það nefnilega vera eigingirni af minni hálfu ef ég sliti þau upp og flytti þau burt frá rótum sínum.

En nú er allt breytt! Ég reikna líka með að flest ykkar deilið áhyggjum mínum af framtíð kynslóðanna í þessu landi með mér. Ógnirnar sem að okkur steðja eru margvíslegar en frá mínum bæjardyrum séð er markaðshyggjan, sem setti okkur í þau spor sem við stöndum í núna, rót þeirra allra. Draumurinn um að tilheyra Evrópusambandinu er ein af þeim alvarlegri því að ef af verður þá höfum við ofurselt okkur lögmálum markaðarins þar með um ókomna framtíð.

Frá höfuðstöðvum ESB í Brussel Ég hef alltaf goldið varhug við því að setja örlög mín í hendur fjöldaframleiddra fræðinga í háreistum skrifstofubyggingum. Það er því síst til að draga úr áhyggjum mínum varðandi framtíðina þegar það á að setja örlög heillar þjóðar í hendurnar á þannig liði! Takið líka eftir því að við erum að tala um lið þar sem æðstu stjórnendurnir verða staðsettir í allt öðru landi! Þetta lið er í aðalatriðum skipað langskólagengnum fræðingum sem ég leyfi mér í fullri alvöru að efast um að hafi kynnst þeim yfirgripsmikla veruleika sem þeir eru að fást við nema af Exel-skjölum framan á tölvuskjá.

Íslensk stjórnvöld, með Samfylkinguna í fararbroddi, keppast samt við að selja okkur þá hugmynd að okkur sé best borgið í exelskjalabólstruðum faðmi slíks fræðimannahers sem Evrópusambandsbáknið er. Einn ráðherra Samfylkingarinnar hefur meira að segja reynt að halda því fram að hér hefði aldrei skollið á nein kreppa ef við hefðum þegar verið gengin inn í sambandið! Eins og þið áttið ykkur á er ég að vísa til orða núverandi utanríkisráðherra sem höfð voru eftir honum fyrir ekki svo löngu síðan.
Össur lofaði krafti (ESB með hraði?) gegn kreppu Maður sem tók þátt í að setja landið á hausinn með heimsku sinni er ekki maður sem mér þykir vert að hlusta á! Skiptir engu þó hann hafi af einhverjum ástæðum verið gerður að utanríkisráðherra! Þeir sem hafa lesið tilsvör hans í Rannsóknarskýrslunni, 7. bindinu, velkjast varla í vafa um það að Össur Skarphéðinsson hefur ekki hundsvit á því sem hann er að fást við! Það er því út í hött að taka nokkurt mið af því sem hann segir um ástand efnahagsmála í fortíð, nútíð eða framtíð enda er haft eftir honum í Skýrslunni að „hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum!“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar)

Það þarf ekki nema meðalskynsemi til að skilja það að maður bankar ekki upp á í fullbyggðu húsi á nærbuxunum einum fata og býður upp á sambúð! Hins vegar er rétt að benda á það að þó Evrópusambandið líti út fyrir að vera fullbyggt hús þá eru innviðir þess allt annað en glæsilegir enda eru þeir af sama efni og settu hér allt á hausinn haustið 2008. Innviðirnir í þeirra húsum eru líka ESB vill alla 
Evrópu undir einn hatt teknir að fúna.

Það nægir að líta til nokkurra nágranna okkar til að átta sig á þessari stað- reynd. Ég læt mér nægja að minna á Írland og Grikkland í þessu sambandi og spyr mig og ykkur öll: Að hvaða leyti er staða okkar nú verri en þeirra þjóða sem byggja þessi lönd? Er líklegt miðað við það hvernig hefur verið brugðist við þeim vanda sem hefur steðjað að hagkerfum þessara þjóða að okkur sé betur borgið í Evrópu- sambandinu? Ég segi: NEI!

Evrópusambandið og ungur gjaldmiðill þess riða til falls og mun taka þær þjóðir sem hafa ánetjast því með sér! Það verður fámenn auðmannastétt sem hagnast á falli þess en hinn almenni borgari mun standa eftir fátækari en nokkru sinni. Evrópusambandið varð heldur ekki til í því markmiði að bæta lífskjör hins almenna borgara heldur til að stjórna markaðinum og í þeim tilgangi hafa æðstu stjórnendur þess gefið út ótrúlegt langlokuregluverk um hvaðeina.

Regluverk Evrópusambandsins hefur sett danska blómaræktendur á hausinn en tryggt Hollendingum einokunarstöðu á blómamarkaðinum. Ávaxtaframleiðendur víða á Evrópusvæðinu geta ekki lengur keppt við þá sem búa við Miðjarðarhafið vegna staðla Evrópusambandsins sem kveða m.a. á um það hvernig lögun og lengd bananans á að vera til að hann lendi í söluvænlegasta flokknum.

Ef við göngum inn í Evrópusambandið þurfa íslenskir bændur, meðal annarra, að taka mið af reglum sambandsins varðandi það hvað má bera á tún og hvaða fóður skepnur eiga að nærast á. Svo nokkur dæmi séu tekin. Samkvæmt reglum sambandsins má t.d. ekki nýta innihald haughússins til að bera á tún og kálfar sem eru aldir upp fyrir kjötmarkaðinn má ekki setja í hagagöngu.

Ekki 
stóll? Síðasta dæmið sem ég nefni hér sel ég ekki dýrara en ég keypti það. En það er að staðlaráð Evrópusambandsins hefur m.a.s. gefið út nákvæm fyrirmæli um það hvað fætur undir stólum eiga að vera margir til að þeir geti talist til slíkra. Hvaða stólahönnuður ætli hafi komið þessu þröngsýnissjónarmiði sínu að inn í reglugerðarfarganið?

Ég gæti haldið upptalningu af þessu tagi áfram en þessi ætti að duga til að færa ykkur heim sanninn um það að það að ganga inn í Evrópusambandið tryggir okkur ekki fyrir því sem varð íslensku hagkerfi að falli! Þ.e. einkavinavæðingunni og/eða krosstengslunum. Í kerfi sem byggist á markaðinum þá verða alltaf einhverjir sem reyna að sölsa hann undir sig með áhrifum sínum, völdum og peningum. Markaðskerfið sem Evrópusambandið byggir á er ekkert öðru vísi hvað það varðar!

Til að draga það enn skýrar fram hvers vegna ég er á móti inngöngu inn í Evrópusambandið vil ég undirstrika það að af gildum ástæðum, sem öll þjóðin hefur reynt á eigin skinni, þá trúi ég ekki á þau lögmál markaðarins sem sambandið byggir á. Ég trúi heldur engan veginn á sanngirni reglugerðarfargansins sem sambandið hefur smíðað utan um hann.

Ég minni á að saga okkar geymir reynslu forfeðra okkar af því að fela öðrum stjórn landsins. Ég efast um að við verðum í reynd mikið betur stödd með ákvarðanatöku varðandi öll mikilvægustu mál lands og þjóðar í háreistri skrifstofubyggingu í Brussel en við vorum þegar við vorum undir nágrönnunum í Kaupmannahöfn. Ég leyfi mér að efast um að einokunarverslun undir flaggi ESB eigi eftir að reynast okkur mikið betur en sú sem var rekin hér í aldaraðir undir því danska.
Á 
engu nema 
nærhaldinu
Það vekur mér líka mjög mikla tortryggni að þjóð sem kemur á nærbuxunum og biður um Evrópusambandsaðild skuli yfir höfuð fá áheyrn! En þegar betur er að gáð þá erum við nefnilega alls ekki eins illa stödd og af er látið! Lítið allt í kringum ykkur og munið eftir forferðum okkar sem þrátt fyrir enga tæknikunnáttu gátu tórað hér undir danskri einokun. Þeir höfðu ekkert að treysta á nema það sem landið gaf af sér og eigið þolgæði.

Við höfum hér allt til alls til að lifa hér góðu lífi! Við eigum nú þegar gríðarlega öfluga matvælaframleiðslu sem við nýtum okkur þó engan veginn til fulls. Við gætum t.d. framleitt allt okkar grænmeti sjálf! Ef við höguðum okkur skynsamlega þá gætum við t.d. nýtt jarðvarmaorkuna frá Þeystareykjum fyrir grænmetisver á Húsavík í stað þess að samþykkja að hún verði nýtt til að knýja enn eitt álverið!

Við eigum enn þá: fiskinn, vatnið, jarðvarmann og fallvötnin en þetta er allt í bráðri hættu ef þjóðin ætlar að fljóta sofandi að þeim feigðarósi sem markaðshyggjuöflin innan hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórn stefnir okkur í.

Ég hvet ykkur hvert og eitt ykkar til að  spyrna við fótum og vakna til meðvitundar um það hverjum er best treystandi fyrir framtíð þinni og afkomenda þinna.

Ég fullyrði að framtíð okkar er engan veginn skynsamlega tryggð með því að setja hana í hendurnar á skrifstofubákni sem er stjórnað af erlendum fræðingaher Evrópusambandsins!

Af öllu framansögðu ætti að vera ljóst hvers vegna ég hafna alfarið inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið!

Ég þakka áheyrnina.


Ræða Önnu

Hér birtist ræða Önnu Ólafsdóttur Björnsson, flutt á útifundi Rauðs vettvangs gegn ESB-aðild 16. júlí sl. Ræður Rakelar og Þorvalds birtast innan skamms, sem og ályktun fundarins.

Ég er Íslendingur, ég er alþjóðasinni, ég er Evrópusinni en ég er EKKI Evrópusambandssinni. Þess vegna tala ég hér í dag á árs afmæli hinnar herfilega misráðnu ákvörðunar að taka upp aðildarviðræður við ESB.
 
Fyrir einu og hálfu ári varð hér á landi merkileg lýðræðisbylting. Ein af helstu kröfunum var að færa valdið nær almenningi. En á þessum degi fyrir ári var skref stigið í þveröfuga átt með aðildarumsókn að ESB. Erfitt er að hugsa sér eina aðgerð sem færði valdið fjær almenningi en einmitt aðild að ESB.
 
Það lýsir sér meðal annars í því að flestar mikilvægar ákvarðanir eru teknar annað hvort af embættismönnum sem þurfa aldrei að standa skil á gerðum sínum gagnvart þeim sem ákvarðanirnar varða EÐA það sem er kannski enn verra, af okkar eigin ráðherrum innan ráðherraráðs ESB, þar sem þeir geta skýlt sér á bak við leyndina sem hvílir á ákvarðanatöku í ráðherraráðinu. Þeir sem hafa litla trú á getu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma til að taka réttar ákvarðanir vita kannski ekki að með inngöngu í ESB færum við úr öskunni í eldinn, því þá myndu ráðherrar ríkisstjórnar Íslands geta skýlt sér á bak við ESB og hætt að þurfa að svara fyrir gerðir sínar gagnvart þjóðinni í veigamiklum málum.
 
Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins er hrollvekjandi lítil, enda má finna vonleysi og uppgjöf hjá þeim sem vilja reyna að hafa áhrif á stjórnmál innan ESB-landanna. Þátttaka í kosningunum 2009 var rétt rúmlega 43% og hafði fallið um 20% á 30 árum, fellur venjulega um 3% milli hverra kosninga og upp í 7%. Í sumum löndum er hún enn minni. Á sama tíma er þátttaka í kosningum til þjóðþinga í álfunni næstum helmingi meiri eða um 75%. Máttleysi, valdaleysi, er það það sem við viljum?
 
Í þónokkur ár starfaði ég náið með Evrópusambandsandstæðingum víðs vegar í álfunni og það var sláandi að heyra í félögum mínum innan ESB sem sáu ekki að unnt yrði að breyta þessari þróun að nokkru gagni. Og þessi aðkoma, Evrópuþingið, er jafnframt fremur valdalaus stofnun, en sú eina sem hægt er að kjósa til. Og á þessu þingi myndi Ísland, innan ESB, aðeins eiga örfáa þingmenn, líklegast sex af 750, kannski færri, ekki fleiri. Máttleysi, valdaleysi, er það það sem við viljum?
 
Á því eina ári sem liðið er síðan þessi slæma ákvörðun var tekin, að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, hefur margt gerst. Í ljós hefur komið að evran er ekki töfralausn og á evrusvæðinu finnst vandi sem lýsir sér um margt svipað og hjá okkur, eins og í Grikklandi, og eins enn verri vandi, atvinnuleysi, jafnvel upp í 20-30 % og enn meira meðal unga fólksins.
 
Það er reynt að blekkja. Aftur er hafinn söngurinn um að ef við hefðum verið í ESB hefði efnahagshrunið ekki dunið á okkur. Söngur sem þagnaði um stund en er nú aftur hafinn í hálfgerðri örvæntingu. Gylliboð, órökstuddar staðhæfingar, áróður, boðsferðir og fjáraustur ESB okkur til handa er það sem við megum búast við ef við höldum áfram í aðildarviðræðum.
 
Ég ætla rétt að vona að við séum ekki þjóð sem ekki lætur plata sig aftur. Við vitum að gull og grænir skógar finnast hvorki né spretta upp úr engu. Það er ekki til einhver töfralausn sem kippir öllu í lag – og allra síst er hún ESB-aðild.
 
Við fáum líka okkar skerf af hótunum: Við viljum fá ykkur í ESB hið snarasta, að vísu verðið þið kannski að sæta afarkostum í Icesave í leiðinni.  Og nýjasta, matreitt innanlands: Okkur verður hent út úr EES ef við hættum við aðildarumsókn. Og hvað með það? Sviss hafnaði EES og fékk tvíhliða samning en er nú að íhuga EES-þátttöku. Hversu líklegt er þá að okkur yrði hent út úr EES, ef við viljum vera þar áfram?
 
Margir, ekki síst sumir sem eru í hjarta sér andvígir aðild að ESB, létu sig dreyma um að aðildarumsókn myndi efla þroskaða umræðu um kosti og galla aðildar. Og vissulega hafa ýmsir reynt að halda þessari umræðu á lofti. Það er ekki hörgull á góðri umræðu (og reyndar óvandaðri líka), heldur vantar mikið á að almenningur taki þátt í henni. Segir það ekki allt sem segja þarf? Staðreyndin er sú að þorri fólks VILL ekki ræða ESB, það vill ekki að tími og orka ráðuneyta, stjórnmálamanna og peningarnir okkar fari í að sinna þessu gæluverkefni sumra.
 
Eru ekki ærin verkefni óleysi í þessu landi? Hættum þessari tímaeyðslu og snúum okkur að verðugri verkefnum.


Mótmæli gegn ESB

Rauður vettvangur boðar til útifundar á Lækjartorgi klukkan 17 í dag. Yfirskriftin er einföld: Höfnum ESB. Ræðumenn: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Rakel Sigurgeirsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson. Fundarstjóri: Vésteinn Valgarðsson. Sjálfboðaliðar mæti a.m.k. hálftíma fyrr.
Látið orðið berast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband