Ræða Skúla

Hlutirnir breytast hratt á krepputímum. Nú hefur ólgan, sem kraumað hefur undir í íslensku samfélagi frá búsáhaldabyltingu, leitað upp á yfirborðið af fullum þunga og sprungið út í fjöldamótmælum. En hver er ástæðan fyrir þessari ólgu? Er hún ekki sú að íslenskur almenningur, rétt eins og almenningur á Grikklandi og Spáni, er búinn að fá nóg af því að bera byrðarnar af fjármálakreppu kapítalismans? Á meðan þeir auðkýfingar, sem rökuðu saman metgróða í góðærinu með því að búa til staðlausa eignabólu, fá milljarða skuldir niðurfelldar í bönkunum, standa mörg hundruð fjölskyldur nú frammi fyrir því að missa heimili sín á nauðungaruppboðum. Fjármálaráðherra kallar fjárlög þessa árs „hrunlög“, því sá djúpi niðurskurður á almannaþjónustu sem þau boði sé stærsta innborgunin af gjaldinu sem við greiðum fyrir hrunið. En fyrir hvað erum við að greiða? Eignabólu og ábyrgðarlausar fjárfestingar auðmanna!

Fjármálaráðherra kallar ríkisstjórnina ábyrga velferðarstjórn. Mér finnst ekkert ábyrgt við það að ætla að leyfa mörg hundruð heimilum að lenda á nauðungaruppboðum, til að þóknast fulltrúum AGS. Sömuleiðis finnst mér það ábyrgðarleysi að vega meira að velferðarkerfinu, einmitt þegar það er mikilvægast. Það mun aðeins auka hér á félagsleg vandamál sem verða erfiðari viðfangs síðar. Niðurskurðurinn mun einnig auka atvinnuleysi, sem er ekki það sem við þurfum á að halda, það mun aðeins dýpka kreppuna. Íslenska fjármálaelítan hefur þegar reynst okkur nógu kostnaðarsöm. Við megum ekki láta ábyrgðarleysi hennar, og vilja stjórnvalda til að þjóðnýta tap þessarar elítu, kosta okkur hér grundvallarmannréttindi eins og réttinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu; bestu mögulegu menntunar og síðast en ekki síst réttinum til að geta séð fyrir sér og sínum með öruggri atvinnu.

Við eigum ekki að þurfa að færa fjármálamörkuðunum frekari fórnir. En vandinn snýst ekki um einstaka auðmenn, þeir voru aðeins að gera það sem grískir og írskir kollegar þeirra gera einnig, raka saman fé á kostnað almennings. Dýpt og umfang kreppunnar á Grikklandi, þær kjaraskerðingar sem ganga nú yfir grískan almenning og það harkalega niðurskurðarprógram sem verið er að keyra í gegn undir handleiðslu AGS, sýnir að gríska fjármálaelítan reynist samlöndum sínum heldur betur dýr í rekstri. Eignabólan á Írlandi sem keyrð var áfram á skuldsetningu hefur valdið efnahag Íra þungum búsyfjum. Írland fór hratt úr nánast fullri atvinnuþátttöku yfir í rúmlega 10% atvinnuleysi, og írska ríkið er í hættu á að gjaldfalla á eigin skuldum, skuldum sem írska fjármálaelítan stofnaði til. Vandinn liggur í kerfi sem gerir einstaklingum kleift að nota hagkerfið sem sitt einkaspilavíti á meðan aðrir taka tapið út í atvinnumissi og öðrum kjaraskerðingum. Krepputihneigingin er innbyggð í kapítalismann. Bólur eins og íslenska eignabólan, írska eignabólan og húsnæðisbólan í Bandaríkjunum, svo dæmi séu nefnd, geta ekki vaxið út í hið óendanlega.

Við tryggjum hér best velferð til framtíðar með því að vinda ofan af orsökum kreppunnar, þ.e. kapítalismanum og markaðsvæðingu samfélagsins. Með aukinni félagsvæðingu og félagslegum rekstri sem lýtur lýðræðislegri stjórn og eftirliti launafólks. Vil ég þar helst nefna fjármálakerfið, velferðar- og menntakerfið auk nýtingarréttar á auðlindum. Við þurfum að skipuleggja atvinnulífið þannig að allir vinnufærir einstaklingar geti unnið fyrir sér og lifað með reisn. Við þurfum að skapa hér samfélag sem býður ungu fólki upp á annað en atvinnuleysi og stöðnun. Fólk á ekki að upplifa sig valdalaust í lýðræðisríki. Við þurfum að skipuleggja baráttu okkar fyrir brýnum hagsmunamálum og fyrir raunverulegum samfélagsbreytingum. Við þurfum að skapa hér sterkt stjórnmálaafl sem er fært um, og treystir sér til, að standa vörð um hagsmuni launþega og annars almennings, og taka þá hagsmuni alltaf fram yfir hagsmuni fjármálaelítunnar.

Við, íslenskur almenningur, berum enga ábyrgð á hruninu, en berum hins vegar ábyrgð á hvert við stefnum með þetta samfélag í framtíðinni. Við berum líka ábyrgð á athöfnum okkar í dag. Með skipulagðri baráttu getum við knúið fram nauðsynlegar samfélagsbreytingar.

Þessa ræðu flutti Skúli Jón Unnar- og Kristinsson á útifundi Rauðs vettvangs á Lækjartorgi þann 6. október síðastliðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband