Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framtíð íslenskrar vinstrihreyfingar

Rauður vettvangur boðar til fundar í Iðnó laugardaginn 6. október kl. 13. Framsögumenn verða Andrés Magnússon geðlæknir, Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi og háskólanemi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sagnfræðingur og Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.

Nú þegar æ fleiri vinstrimenn þykjast sviknir af stefnu núverandi ríkisstjórnar vaknar umræðan um þörf fyrir nýjan, trúverðugan vinstriflokk fyrir næstu kosningar. Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að bjarga einkareknum bönkum og viðhalda aðstöðu þeirra til að féfletta almenning, eða að taka fjármálastofnanir í þjónustu fólksins? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að binda íslenskt samfélag á klafa evrópsks auðvalds til frambúðar, eða styrkja fullveldið þjóðinni til hagsbóta? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að auka ítök auðvaldsins á auðlindum lands og sjávar, eða efla félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir þeim? Þessar og fleiri spurningar þurfa vinstrimenn að ræða af alvöru og finna niðurstöðunni farveg við hæfi.


1. maí ávarp Rauðs vettvangs 2012

Á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins 2012 boðar Rauður vettvangur nauðsyn markvissrar baráttu gegn auðvaldsskipulaginu og afleiðingum þess.

Kreppan hefur varpað skýru ljósi á innri andstæður auðvaldskerfisins. Það leiðir óhjákvæmilega af sér kreppu vegna þess að það er knúið áfram af gróðafíkn auðmanna en afleiðingum kreppunnar er velt yfir á alþýðuna. Engu breytir þó krataflokkar myndi ríkisstjórn enda hafa þeir ekki beitt sér fyrir neinum breytingum sem skipta máli til hagsbóta fyrir alþýðuna. Einu ráðin sem þeir sjá eru að reyna að knýja fram aukin umsvif með meiri ójöfnuði, auknum skammtímagróða fyrir auðmenn og aukinni skuldsetningu sem lendir á samfélaginu. Áfram er gróðinn einkavæddur en tapinu velt yfir á almenning.

Frjálshyggjan lifir góðu lífi og auðvaldið heldur áfram að sölsa undir sig sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Áform um lagningu rafmagnssæstrengs til Bretlands er stærsta skref til þessa í markaðsvæðngu orkuauðlinda Íslands. Ef hún kemur til framkvæmda mun það leiða af sér aukinn hernað gegn landinu, stórhækkun á orkuverði hér innanlands og mikla skuldsetningu samfélagsins. En gróðinn mun rata í vasa vildarvina Íslandsbanka.  

Lykillinn að raunhæfum breytingum á íslensku samfélagi í þágu almenning felst í því að vinda ofan af markaðsvæðingu í lykilgreinum samfélagsins og auka veg hins félagslega að sama skapi.

Rauður vettvangur


1. maí-ávarp Rauðs vettvangs

Síðan kreppan byrjaði árið 2008, hefur miklu moldviðri verið þyrlað upp til að breiða yfir þá staðreynd að hún er óhjákvæmilegur fylgifiskur auðvaldskerfisins. Látið er í veðri vaka að kreppan sé senn að baki. Það þurfi bara að örva fjárfestingu og hagvöxt, og þá verði allt eins og fyrir kreppu. En það er engin leið til baka. Eina raunhæfa leiðin út úr kreppunni er aukinn vegur hins félagslega í hagkerfinu og að markaðsvæðingin víki að sama skapi.

Vandi íslensks samfélags er ekki skortur á skuldsetningu eða erlendri fjárfestingu, heldur sá botnlausi ójöfnuður sem stafar af markaðsvæðingunni. Núna reyna SA-sveitir íslenskra atvinnurekenda að knýja fram laga-setningu sem tryggir þeim rýmri yfirráð yfir helstu auðlind þjóðarinnar, til að auka ójöfnuðinn til frambúðar. Þessari valdaránstilraun verður að mæta af fullri hörku.

Kreppan er notuð til að þrengja kost almennings á allan hátt, til hagsbóta fyrir auðvaldið. Það er gert með beinni eignaupptöku í þágu bankanna, með því að láta ríkissjóð borga skuldir bankanna, og loks með niðurskurði í opin-berum rekstri, sem þrýstir á aukna markaðsvæðingu almannaþjónustu. Þá reynir auðvaldið að sverfa svo að þjóðinni að hún fallist á inngöngu í ESB, sem tryggja mun enn frekara alræði markaðshyggjunnar.

Rauður vettvangur hvetur íslenska alþýðu til að snúa vörn í sókn og fylkja sér um breytta stefnu sem felur í sér aukið sjálfstæði þjóðarinnar og aukna félagsvæðingu í efnahagsmálum.

Af aðalfundi Rauðs vettvangs

Síðasta laugardag, þann 16. apríl, var aðalfundur Rauðs vettvangs haldinn í Friðarhúsi.

Eftirfarandi lagabreytingar voru einróma samþykktar: 2. grein hefst svo: "Félagsmenn geta þeir orðið sem samþykkja stefnuyfirlýsingu félagsins, eru virkir í starfi og greiða félagsgjöld. Umsókn um félagsaðild skal borin upp á fundi félagsmanna og hljóta samþykki meirihluta. Verði félagsmaður uppvís..." Enn fremur var samþykkt í 6. grein að varamenn skyldu verða "2-5", að "stefnu og starfi" komi í stað "starfsemi" og að formaður og varaformaður væru festir í lög ásamt ritara og gjaldkera.

Aðalmenn í stjórn voru kjörin: G. Rósa Eyvindardóttir, Kári Svan Rafnsson, Sólveig Anna Jónsdóttir, Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Varamenn í stjórn voru kjörin: Ágúst Valves Jóhannesson, Claudia Overesch, Reynir Sigurbjörnsson, Sigurjón I. Egilsson og Vilhjálmur Hjaltalín. Samþykkt var að fresta kjöri skoðunarmanna reikninga til næsta félagsfundar.

Félagsgjald var samþykkt kr. 2000 fyrir starfsárið 2011-2012.

Að lokum skal vakin athygli á því að kennitala (630410-1770) og reikningsnúmer (0101-26-010177) Rauðs vettvangs eru komin á heimasíðu félagsins, vegna mikillar eftirspurnar, til að auðvelda velvildarfólki okkar að styrkja félagið með fjárframlögum.


Ályktun Rauðs vettvangs um IceSave

Íslenskur almenningur stofnaði ekki til IceSave-skulda og á ekki að borga þær. Fjármálaauðvaldið getur átt sínar skuldir sjálft. Almenningur á Íslandi og almenningur í Bretlandi og Hollandi ætti að berjast sameiginlega gegn sameiginlegum óvinum sínum í bönkum, ríkisstjórnum og öðrum valdastofnunum heimsvaldasinnaðs fjármagns. Höfnum IceSave í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl!

Rauður vettvangur 24. mars 2011


Ályktun Rauðs vettvangs um Líbíu 24. mars 2011

Ályktun Rauðs vettvangs um Líbíu 24. mars 2011

 

Rauður vettvangur fordæmir stríðsaðgerðir nokkurra stórvelda gegn Líbýu og krefst þess að íslensk stjórnvöld beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir því að þeim linni. Ályktun Öryggisráðs SÞ um svokallað flugbann er í raun stríðsyfirlýsing, sem nokkur stórveldi telja sig geta notað til að auka ítök sín í Líbýu og olíuauði landsins. Heimsvaldastefnan á sér engar hugsjónir, aðeins hagsmuni, og afskipti hennar eru aldrei til góðs fyrir alþýðuna.

 

Það sýnir skinhelgi árásanna að samtímis berjast sömu öfl gegn lýðræði og mannréttindum í Írak, Afganistan, Palestínu, Barein og víðar.

 

Heimurinn horfir upp á röð af dæmum um hernaðarinnrásir stórveldanna í fullvalda ríki. Öll þessi tilvik hafa leitt af sér samfélagshrun, örkuml og dauða fjölda fólks og langvarandi eymd á öllum sviðum. Heimsbyggðin verður að rísa upp gegn þessari stefnu og alþýðan í hverju landi að fá að ráða sínum málum sjálf.

 

Rauður vettvangur


Félagsfundur 24. mars og aðalfundur 16. apríl

Rauður vettvangur heldur félagsfund um störf og stefnu félagsins kl. 20:00 fimmtudagskvöldið 24. mars í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að mæta og taka þátt í umræðum sem öðrum þræði geta nýst á komandi aðalfundi félagsins.

Aðalfundur Rauðs vettvangs verður haldinn í Friðarhúsi laugardaginn 16. apríl. Nánari tímasetning og dagskrá í kring um fundinn verður tilkynn er nær dregur, en dagskrá sjálfs fundarins verður samkvæmt lögum félagsins:
a. Skýrsla stjórnar um undangengið starfsár.
b. Reikningar fyrir undangengið starfsár.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
e. Starf félagsins framundan.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál.
Rétt er að vekja athygli á að lagabreytingartillögur skulu liggja fyrir tveim vikum fyrir aðalfund, og að á aðalfundi eiga atkvæðisrétt allir skuldlausir félagar sem mæta.

Rauður vettvangur: "Ræðum stefnuna"

Fréttatilkynning 16. janúar

Rauður vettvangur: Ræðum um stefnuna
Rauður vettvangur telur kröfur um utanþingsstjórn með verkefnalista missa marks, og að ekki sé sérstök ástæða til að ætla að slílk stjórn mundi starfa betur en sú sem nú situr, hvað þá vega að fjármálaöflunum. Orkunni væri betur varið í þrýsting á sitjandi ríkisstjórn um að hverfa af braut markaðshyggjunnar, en vænlegast til árangurs, fyrir unnendur lýðræðis og réttlætis, væri að marka baráttunni nýja og sjálfstæða stefnu á nýtt þjóðskipulag. Kominn er tími til að íslenska mótmælahreyfingin stígi pólitísk og hugmyndafræðileg skref fram á við. Í því skyni býður Rauður vettvangur til fundar um stefnu og markmið baráttunnar, sunnudaginn 23. janúar klukkan 14 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Allir velkomnir, nema nasistar.
Rauður vettvangur
Nánari upplýsingar veitir Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Rauðs vettvangs, s. 895 9564

Ályktun Rauðs vettvangs: 80 ár frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands

80 ár frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands
 
Þann 29. nóvember eru 80 ár liðin frá stofnun Kommúnistaflokkur Íslands. Hann barðist ötullega fyrir hagsmunum alþýðunnar í lengd og bráð og hafði nýtt, sósíalískt samfélag að leiðarljósi, ásamt byltingarsinnaðri baráttu gegn auðvaldsskipulaginu. Hjá þeim flokkum sem fylgt hafa í kjölfarið hafa þessi grundvallaratriði máðst og að lokum horfið. Í dag stendur samfélagið aftur frammi fyrir kreppu auðvaldsins og framfarir skila sér ekki til almennings í bættum lífskjörum. Nú sem fyrr eru kratar notaðir til að sundra alþýðunni og bægja henni frá baráttu gegn auðvaldinu, en andspyrnuna vantar byltingarsinnaða forystu. Hugsjónir Kommúnistaflokksins um nýtt, sósíalískt samfélag eru jafn gildar í dag og þær voru fyrir 80 árum, og nauðsyn þeirra hefur aldrei verið ljósari. Saga Kommúnistaflokksins sýnir að byltingarsinnar þurfa að hafa sitt eigið skipulag til þess að sameina verkalýðsstéttina og alþýðuna í baráttu fyrir nýju samfélagi.
 
Rauður vettvangur
29. nóvember 2010


Kommúnistaflokkur Íslands 80 ára

Mánudaginn 29. nóvember verða liðin 80 ár frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands. Af því tilefni verður afmælisboð á vegum Rauðs vettvangs í Friðarhúsi mánudaginn 29. nóvember kl. 20.

Þar verður frjálsleg dagskrá, kynning á ýmsu sem er á döfinni hjá félaginu. Einnig verður skeggrætt um Kommúnistaflokkinn, arfleifð hans og skírskotun til nútímans. Þá verður væntanlega lagt á ráðin um málþing þar að lútandi eftir áramótin.

Allir eru velkomnir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband